Þakgluggar fjúka af flugskýli

Björgunarsveitir voru kallaðar út rétt fyrir hádegi. Myndin er úr …
Björgunarsveitir voru kallaðar út rétt fyrir hádegi. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

Björgunarsveitir voru kallaðar út rétt fyrir klukkan 12 eftir að tilkynning barst um að þakgluggar væru að fjúka af flugskýli í Haukadal.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, er björgunarsveitarfólk á leiðinni á staðinn til að byrgja fyrir gluggana og koma í veg fyrir frekara tjón, en flugvélar eru í flugskýlinu.

Hann segir vindinn vera farinn að aukast á Suðurlandi en annars hafi morgunninn verið frekar rólegur.

Annað útkall barst vegna bíls sem var fastur í snjó fyrir norðan, nálægt Goðafossi.

Davíð Már segir lægðina virðast vera dýpri en gert var ráð fyrir og hvetur fólk til að huga að lausamunum til að koma í veg fyrir tjón. Þar á hann meðal annars við trampólín og garðhúsgögn.

mbl.is