Fuðraði upp á 20 mínútum

Steypti grunnur kirkjunnar stendur nánast einn eftir.
Steypti grunnur kirkjunnar stendur nánast einn eftir. Ljósmynd/Svafar Gylfason

Svafar Gylfason, slökkviliðsstjóri í Grímsey, telur líklegast að kviknað hafi í Grímseyjarkirkju út frá rafmagni. „Hún var kynt með rafmagnsofnum. Manni finnst ekkert annað koma til greina,” segir hann spurður út í eldsupptökin.

Spurður hvort íkveikja komi til greina segir hann það langsótt. Hann nefnir að teymi frá rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra komi væntanlega til eyjarinnar í dag til að skoða vettvanginn.

Brunarústir kirkjunnar.
Brunarústir kirkjunnar. Ljósmynd/Svafar Gylfason

Hann segir það mikil áfall að missa kirkjuna en þakkar fyrir að enginn mannslíf voru í húfi.

„Þetta er ofboðslega illa farið. Við vorum að slökkva í glæðum til að ganga 5 í morgun en það er nánast allt horfið, rétt steypti grunnurinn eftir,” greinir Svafar frá.

Það var mágkona hans, sem býr við hliðina á kirkjunni, sem hringdi í hann um korter í ellefu í gærkvöldi og tilkynnti honum um eldinn.

Ljósmynd/Svafar Gylfason

Ekkert hægt að gera

Á undan Svafari á staðinn var samt starfsmaður flugvallarins í Grímsey sem sat upp í turni og sá bjarmann. Hann kom akandi á slökkviliðsbíl frá Isavia.

„Það var allt orðið alelda þegar við komum. Kannski fimm mínútum eftir að ég kom hrundi turninn [kirkjuturninn]. Þá fuðraði þetta upp á svona 20 mínútum. Það var orðinn það mikill hiti og hvöss norðanátt með þessu. Það var því miður ekkert hægt að gera.”

Nánast allir íbúar Grímseyjar komu á staðinn og buðu fram aðstoð sína. „Það hjálpast allir að þegar svona er,” segir Svafar, sem er einn af fimm slökkviliðsmönnum  á eyjunni.

Það sem eftir stendur af kirkjunni.
Það sem eftir stendur af kirkjunni. Ljósmynd/Svafar Gylfason

Spurður hvort hús í grenndinni hafi verið í hættu nefnir hann Miðgarða, gamla prestsetrið, en þar býr enginn í dag. Strax var farið í að reyna að verja húsið með því að kæla það. Tjón varð jafnframt á krossum á leiðum næst kirkjunni vegna hita og reyks.

„Það er sjónarsviptir af henni. Þetta var mjög falleg kirkja og búið að halda henni vel við,” segir Svafar.

Miðgarðakirkja í Grímsey var reist árið 1867 og var úr …
Miðgarðakirkja í Grímsey var reist árið 1867 og var úr rekavið. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert