Landsvirkjun greiðir ríkinu árlega fyrir nýtingu á Þjórsársvæði

Þjórsá rennur í Sultartangalón og áfram í önnur miðlunarlón neðar …
Þjórsá rennur í Sultartangalón og áfram í önnur miðlunarlón neðar á vatnasvæðinu. mbl.is/RAX

Landsvirkjun mun greiða ríkinu 90 milljónir árlega og 1,5 milljarða vegna fyrri afnota á Þjórsársvæðinu. Kemur þetta fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Um er að ræða samkomulag milli forsætisráðuneytisins og Landsvirkjunar um endurgjald vegna nýtingar Landsvirkjunar á vatns- og landsréttindum á Þjórsársvæði innan þjóðlendna. Kemur samningurinn til vegna ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA frá árinu 2016 þar sem endurgjaldslaus afnot af landi og auðlindum í eigu hins opinbera eru talin fela í sér ríkisaðstoð sem stangast á við EES-samninginn. Hefur síðan verið unnið að samningsgerð.

Samkvæmt samkomulaginu mun Landsvirkjun greiða 90 milljónir árlega auk verðbóta, frá árinu 2017, en að 1,5 milljarður sé greiddur vegna afnota fyrir þann tíma. Mun Landsvirkjun greiða þá upphæð síðar á árinu.

Ekki er gert ráð fyrir að þessar samningsgreiðslur hafi áhrif á arðgreiðslur Landsvirkjunar í framtíðinni, en á síðustu fjórum árum hefur Landsvirkjun greitt íslenska ríkinu 22 milljarða króna í arð.

Þessi samningur er mikið fagnaðarefni. Þótt Landsvirkjun hafi lögvarinn rétt samkvæmt sérlögum til nýtingar auðlinda á þessu svæði þá hefur ekki áður legið fyrir samkomulag um endurgjald fyrir þá nýtingu. Samningurinn staðfestir nýtingarrétt orkufyrirtækis þjóðarinnar og sá fyrirsjáanleiki er mikilvægur. Vinnsla okkar á orku úr endurnýjanlegum auðlindum þjóðarinnar er mikilvægt framlag til loftslagsmála, auk þess að skapa hagnað. Arðgreiðslur Landvirkjunar í ríkissjóð halda áfram að aukast og við stefnum að því að þær verði 10-20 milljarðar á ári næstu árin.,” er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert