Guðrúnu sagt upp og sveitarstjóri hafnar ásökunum

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri hjá Borgarbyggð segist alfarið hafna ásökunum …
Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri hjá Borgarbyggð segist alfarið hafna ásökunum um eineltið. Samsett Ljósmynd mbl.is/Eggert

Guðrúnu Jónsdóttur, sem gegnt hefur starfi forstöðumanns safnahússins í Borgarfirði síðastliðin 15 ár, var sagt upp störfum í gær.

Tilkynnti hún þetta á Facebook-síðu sinni í morgun. Hún segir forseta sveitarstjórnar hafa borið henni tilkynninguna um uppsögnina.

„Sú ákvörðun er mér þungbær enda var það gert í kjölfar þess að ég lagði fram eineltiskvörtun á hendur sveitarstjóra vegna óréttmætrar framkomu hennar í minn garð og í kjölfar þess að ég höfðaði dómsmál gegn Borgarbyggð þar sem ég taldi að á mér væri brotinn réttur sem starfsmanni,“ segir hún í færslu sinni á Facebook.

„Ég er stolt af því að hafa staðið með menningararfi Borgfirðinga og nágranna þeirra, varðveislu hans og miðlun þó móti blési, sér í lagi í átökum við embættismenn sem ekki sáu gildi hans fyrir samfélagið.“

Hafnar ásökununum og segir málið í farvegi

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri hjá Borgarbyggð, segist alfarið hafna ásökunum um eineltið í færslu á Facebook-síðu sinni sem nú hefur verið tekin út.

„Undanfarnir dagar hafa verið mér erfiðir. Ég hef verið ásökuð um einelti í starfi mínu sem sveitarstjóri gagnvart starfsmanni. Mér þykir miður að starfsmaðurinn hafi upplifað einelti af minni hálfu,“ sagði Þórdís í færslu sinni.

„Framangreindri ásökun um einelti hafna ég alfarið. Ég get eðli máls samkvæmt ekki greint frá málinu í efnisatriðum vegna þagnarskyldu minnar sem sveitarstjóri, en málið er í farvegi þar sem allt er uppi á borðum.“

mbl.is