Hvað veldur haglélinu í dag?

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óstöðugt loft og lágur hiti er það sem helst veldur því hagléli sem íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa mátt þola í dag. Þetta segir veðurfræðingur Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Þá myndar hlýtt loft úr suðri og kalt úr norðri stóra gráa éljabakka sem nú svífa yfir suðvesturhorninu.  „Það eru náttúrulega leifar af lægðinni sem fór yfir í gær. Hún er komin norður fyrir Jan Mayen og er ennþá mjög djúp og dregur kalt heimskautaloft hingað suður á boginn.

Þetta veldur óstöðugleika sem kemur fram í svona háreistum éljabökkum,“ segir hann.

„Gæti dottið niður fyrir frostmarkið“

Veðurfræðingur býst við að það lægi sennilega í kvöld. Hitinn sé þó ekki mjög hár og hækki ekki úr þessu. „Hann gæti dottið niður fyrir frostmarkið.“ Því geti verið hált í kvöld og nótt, jafnvel upp undir morgunn.

Spurður hvort það sé hreinlega farið að vetra svarar hann: „Það er komið haust þannig það er ekkert að fara að breytast mikið.“

Þó megi búast við að það hlýni um helgina, en hvassviðri á laugardag, sjálfan kjördag.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is