„Það er bara allt horfið“

Brunarústir kirkjunnar.
Brunarústir kirkjunnar. Ljósmynd/Svafar Gylfason

Á meðal þess sem eyðilagðist í eldsvoðanum í Miðgarðakirkju í Grímsey var altaristafla sem var gerð af Arngrími Gíslasyni á Völlum í Svarfaðardal árið 1878 og er eftirmynd af verki eftir Leonardo da Vinci af síðustu kvöldmáltíðinni. 

„Það brann allt sem var inni í kirkjunni, það er bara allt horfið,” segir Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar kirkjunnar.

Hann nefnir að töluvert hafi verið af útskornum munum í kirkjunni sem djákni sem starfaði þar um miðja síðustu öld bjó til, þar á meðal skírnarfontur og útidyrahurðin. „Þetta eru munir sem verða ekki bættir,” bætir hann við.

Þar voru einnig tvær kirkjuklukkur úr kopar, fengnar úr Siglufjarðarkirkju.

Miðgarðakirkja áður en hún brann til kaldra kola í gærkvöldi.
Miðgarðakirkja áður en hún brann til kaldra kola í gærkvöldi. mbl.is

Fermingarkyrtlarnir sluppu

„Það má enginn hreyfa við neinu fyrr en lögreglan er búin að skoða svæðið. Fólkið sem fór þarna í kring í morgun segist ekki sjá neitt, ekki klukkurnar heldur, það er allt horfið.”

Alfreð segir að þegar kirkjuturninn féll hafi hvass vindurinn orðið til þess að allt varð alelda undir eins, „bara eins og púðurtunna”.

Það eina sem ekki varð eldinum að bráð voru fermingarkyrtlarnir sem voru í heimahúsi.

Ljósmynd/Svafar Gylfason

Byggð úr rekaviði

Miðgarðakirkja var byggð árið 1867 úr rekaviði. Hún stóð þá nær Miðgarðabænum en var færð um lengd sína árið 1932 vegna eldhættu. Um leið var byggður við hana kór og forkirkja með turni. Gagngerar endurbætur á kirkjunni fóru fram 1956 og hún var endurvígð. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990, að því er kemur fram á vef Akureyrarbæjar. 

Miðgarðakirkja var timburhús, 7,69 m að lengd og 4,77 m á breidd, með kór undir minna formi, 3,11 m að lengd og 3,39 m á breidd, og tvískiptan turn við framstafn, 2,67 m að lengd og 2,75 m á breidd, að því er segir á vef Minjastofnunar Íslands.

Þök framkirkju og kórs voru krossreist og klædd trapisustáli en turnþök klædd sléttu járni. Kirkjan var klædd sléttum trefjaplastsplötum, stóð á steinsteyptum sökkli og var stöguð niður á hliðum.

Alfreð Garðasson sóknarnefndarformaður í Grímsey.
Alfreð Garðasson sóknarnefndarformaður í Grímsey. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is