Vona að þau hafi náð utan um smitin

Fimm smit greindust til viðbótar á Reyðarfirði í dag.
Fimm smit greindust til viðbótar á Reyðarfirði í dag. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Fimm kórónuveirusmit greindust á Reyðarfirði í dag úr sýnatöku gærdagsins en ríflega 200 sýni voru tekin. Allir þeir sem greindust voru í sóttkví. Úr þeim 90 hraðprófum sem voru tekin vegna smitgátar kom engin jákvæð niðurstaða.

Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar á Austurlandi.

Skólahald í bæði leik- og grunnskóla mun hefjast að nýju í fyrramálið í ljósi þess að mikill meirihluti hefur nú lokið sóttkví og smitgátt. Þá hefur enginn greinst utan sóttkvíar. Er aðgerðarstjórnin bjartsýn á að búið sé ná utan um smitin sem greindust á svæðinu í síðustu viku.

Athygli er þó vakin á því að margir starfsmenn leikskólans geta enn ekki mætt í vinnu vegna smita og sóttkvíar, og því gæti sú staða komið upp að loka þurfi deildum vegna manneklu á næstu dögum.

mbl.is