Eldurinn bókstaflega át kirkjuna

Aðeins sökklar standa efti og stórt sár er í þorpsmynduinni. …
Aðeins sökklar standa efti og stórt sár er í þorpsmynduinni. Strax er hugur í fólki að reisa nýja kirkju. Ljósmynd/Svafar Gylfason

„Sagan hefur glatast en lífið heldur áfram. Viðbrögðin eru sterk. Mér heyrist á öllum að ekki komi annað til greina en að kirkja verði aftur reist í eyjunni okkar, þótt lítið sé hægt að segja nú og ekkert hafi verið ákveðið, svo skammt er liðið frá brunanum,“ segir Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar Miðgarðasóknar í Grímsey.

Tilgátur eru um að kviknað hafi í út frá rafmagni þegar Miðgarðakirkja í Grímsey brann til kaldra kola í fyrrakvöld. Rafmagnstafla var í turni kirkjunnar, þar sem sjónarvottar sáu mikinn eld. „Þegar turninn var brunninn segir fólk mér að eldurinn hafi bókstaflega étið kirkjuna upp á svipstundu,“ segir Alfreð. Hann er sem stendur í landi í fríi en hefur verið í góðu sambandi við sitt fólk í Grímsey vegna þessa.

Stjórnvöld styðji við heimamenn

Menn frá rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra og úr Reykjavík fóru í Grímsey í gær til kanna aðstæður og eldsupptök. Prestar Dalvíkurprestakalls, sem þjóna eynni, fóru sömuleiðis á staðinn. Kirkjubruninn hefur vakið sterk viðbrögð víða í þjóðfélaginu og margir tjáð sig um málið. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Facebook þetta vera mikið áfall fyrir samfélagið í Grímsey og ljóst að þarna hefðu „...margar merkar menningarminjar eyðilagst, sem er óbætanlegt tjón. Hugur minn er hjá íbúum og öllum þeim sem unnu þessari merku kirkju. Stjórnvöld munu ræða við heimamenn og ég er viss um að það verður ríkur vilji allra til að styðja við bakið á þeim í kjölfarið.“

Miðgarðakirkja var byggð 1867 af Árna Hallgrímssyni á Garðsá í Eyjafirði og hans mönnum. Hæg voru heimatök um efnivið; rekavið sem rak að landi norðan úr höfum. Kirkjan var 7,7 m að lengd og 4,8 m á breidd, með kór undir minna formi. Upphaflega var byggingin ögn minni, en árið 1956 var hún svo endurvígð, þá eftir stækkun og miklar endurbætur, sem sr. Sigurgeir Sigurðsson, þáverandi biskup Íslands, hafði hvatt til eftir vísitasíu sína í eyna.

Fjöldi merkra kirkjugripa fór forgörðum

Kirkja hefur verið í Grímsey frá fyrstu dögum í kirkjusögu Íslands. Fornar bækur greina frá kirkjuvígslu þar á árunum 1110-1120. Í Grímsey sátu prestar langt fram á síðustu öld að sú breyting var gerð að þjónusta við eyna var færð til presta Akureyrarkirkju. Seinna varð Grímsey hluti af Lögmannshlíðarprestakalli í Glerárhverfi á Akureyri. Síðastliðin 20 ár hefur Grímsey og kristnihald þar verið hluti af skyldum Dalvíkurpresta.

Meðal gripa sem glötuðust í kirkjubrunanum í Grímsey í fyrrakvöld var altaristafla sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina, eftirmynd af verki Leonardos da Vincis. Töfluna gerði Arngrímur Gíslason málari (1829-1887), alþýðulistamaður í Svarfaðardal, en slíkar er að finna í allmörgum kirkjum, einkum á Norðurlandi. „Altaristöflurnar eru mesta stórvirki hans,“ segir dr. Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður og forseti Íslands, í bókinni Arngrímur málari sem kom út 1983.

Af öðrum munum sem forgörðum fóru í eldsvoðanum voru útskorinn skírnarfontur, prédikunarstóll málaður í mahóní- og furulit, aldagamlir ljóshjálmar, gamlar kirkjuklukkur og svo mætti áfram telja.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »