Fjárhagslegt tjón vel á annan tug milljóna

Tölvuþrjót­ar krefja íslenska fyrirtækið Geislatækni um 26 milljónir króna.
Tölvuþrjót­ar krefja íslenska fyrirtækið Geislatækni um 26 milljónir króna. AFP

Fjárhagslegt tjón fyrirtækisins Geislatækni vegna netárásar rússneskra tölvuþrjóta er komið í vel á annan tug milljóna króna.

„Maður spáir ekkert í það þessa stundina,” segir Grétar Jónsson, framkvæmdastjóri Geislatækni.

„Það sem er verið að reyna að leysa þessa stundina er að koma okkur í gang með nýjum netþjóni og öllu sem því tilheyrir. Það tekur tíma,” segir Grétar. „Þetta er óhugnanleg ógnun”.

Vélarnar sem Geislatækni notar eru frá þýsku fyrirtæki sem er með útibú í Svíþjóð. Þar í landi er verið að vinna á fullu í málunum og vonast er til að einhverjar vélar komist í gang með kvöldinu.

Upphæðin tvöfaldast á miðnætti

Tölvuþrjótarnir kröfðu Geislatækni um 26 milljónir króna í lausnargjald eftir að hafa stolið gögnum aðfaranótt föstudags. Að sögn Grétars mun upphæðin tvöfaldast á miðnætti og fer í 52 milljónir króna.

Gögnin eru sem stendur í frosti en þjónustufyrirtæki Geislatækni er að girða fyrir allar mögulegar árásir.

Hann segir ekki koma til greina að borga upphæðina. „Þú hefur ekki einu sinni tryggingu fyrir því að þú fáir þetta til baka þó svo að þú borgir. Það eru litlar líkur á að það gerist.”

AFP

Hjartað liggur niðri 

Spurður út áhrif árásarinnar á starfsemi Geislatækni segir Grétar að stálsmíðin sé enn í gangi og því hafa sjö til átta manns fullt fyrir stafni eins og staðan er núna.

„60% af fyrirtækinu liggur á hliðinni, svona hjartað í fyrirtækinu. Þarna kemur allt inn, allar pantanir og allt saman. Við vorum heppnir að eiga mikið úr að moða þegar þetta skall á okkur en það er mikil vinna framundan. Við erum komnir eftir á með pantanir og annað,” greinir hann frá.

Grétar segir fyrirtækið ekki hafa verið tryggt fyrir svona netárás en að sögn tryggingafélags þess, TM, verður byrjað að bjóða upp á slíkar tryggingar í næstu viku.

Höfuðstöðvar Europol í Hollandi.
Höfuðstöðvar Europol í Hollandi. AFP

Leita að lyklinum

Leit stendur yfir að lykli til að sækja aftur gögnin sem töpuðust. Að sögn Grétars hefur evrópska lögreglan Europol verið að eltast við þessa rússnesku tölvuþrjóta undanfarna mánuði. „Það er verið að reyna að finna þennan lykil til þess að geta opnað skrána úti. Ef þeir finna hann njótum við góðs af því,” segir hann, en sérfræðingar fyrirtækisins eru einnig að reyna að finna lykilinn í gegnum dulkóðun. 

mbl.is