Saksóknari og verjendur færa rök fyrir máli sínu

Armando Beqirai var myrtur á heimili sínu í Rauðagerði 13. …
Armando Beqirai var myrtur á heimili sínu í Rauðagerði 13. febrúrar síðastliðinn. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Aðalmeðferð í Rauðagerðismálinu heldur áfram í dag í héraðsdómi klukkan níu, þegar saksóknari og verjendur flytja mál sitt fyrir dómara. Þannig mun þá aðalmeðferð málsins ljúka og verður dómur að öllum líkindum kveðinn upp innan fjögurra vikna.

Málið hófst þegar Armando Beqirai var myrtur þann 13. febrúar sl. fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. 

Alls eru fjögur ákærð; Angjelin Sterkaj, Shpetim Qerimi, Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho og Murat Selivrada. 

Angjelin hefur játað að hafa orðið Armando að bana og eru hin þrjú ákærð fyrir samverknað. Öll neita þau sök. 

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari flytur málið fyrir hönd ákæruvaldsins en sakborningarnir fjórir hafa hvern sinn verjandann.

Lokahnykkurinn

Gera má ráð fyrir löngum málflutningi í dag enda er málið flókið og sakargiftir ákærðu í málinu tiltölulega mismunandi. 

Á mánudag í síðustu viku hófst aðalmeðferðin í héraðsdómi með því að sakborningar gáfu skýrslu fyrir dómi einn af öðrum. Dagana í kjölfarið komu fjölmörg vitni og gáfu einnig skýrslu og voru þar á meðal einstaklingar, sem upphaflega voru færðir í gæsluvarðhald vegna málsins, réttarmeinafræðingar, lögreglumenn og aðrir sem tengdust málinu með einhverjum hætti. 

Venjubundið hlé var gert á aðalmeðferð fyrir réttri viku, að skýrslutökum loknum, og heldur hún því áfram í dag með lokahnykknum, málflutningum. 

Fylgjast má með framvindu mála á mbl.is.

Anna Barbara Andradóttir hjá embætti héraðssaksóknara og Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Anna Barbara Andradóttir hjá embætti héraðssaksóknara og Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert