Segir vel geta verið að morðið hafi verið nauðvörn

Angjelin Sterkaj, sakborgningur í Rauðagerðismálinu. Til vinstri á mynd er …
Angjelin Sterkaj, sakborgningur í Rauðagerðismálinu. Til vinstri á mynd er verjandi hans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verjandi Angjelin Sterkaj, sem játað hefur á sig morðið í Rauðagerði, segir að ljóst sé að um nauðvörn hafi verið að ræða. Þetta sagði hann í málflutningi sínum við aðalmeðferð Rauðagerðismálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. 

Þannig segir verjandinn að Angjelin hafi brugðist við hótunum Armando Beqirai með því að skjóta hann ítrekað, enda hafi hann linnulaust hótað honum og syni hans lífláti. 

Segir að Armando hafi tengst skipulagðri glæpastarfsemi

Verjandi Angjelin segir að það liggi fyrir að Armando hafi tengst skipulagðri glæpastarfsemi. Vísar hann m.a. til blaðamannafundar lögreglu um Rauðagerðismálið í mars síðastliðnum, þar sem Margeir Sveinsson, þáverandi yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar lögreglu, sagði að lögregla teldi að hinn látni tengist skipulagðri glæpastarfsemi.

Sagðist verjandi Angjelin að hann væri undrandi á því að ákæruvaldið hafi ekki rakið þessar hótanir Armandos í garð Angjelin eða þá staðreynd að Armando væri tengdur skipulagðri glæpastarfsemi.

Þannig segir verjandi Angjelin að hann hafi ekki ætlað sér að myrða Armando þegar þeir hittust í Rauðagerði 13. febrúar síðastliðinn. 

Vill að Angjelin fái vægan dóm

Fyrr í dag færði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari rök fyrir máli sínu og sagði að augljóst væri að morðið í Rauðagerði hafi verið hrein og klár aftaka. Sagði hún að Armando hafi verið skotinn meðal annars í bakið og verknaðurinn allur farið fram á innan við mínútu. Af því leiðir að hann hafi verið þaulskipulagður. 

Verjandi Angjelin segir að aðstæður á vettvangi og mat réttarmeinafræðings geti vel bent til að um nauðvörn hafi verið að ræða. Þannig segir hann að skot í bak Armandos séu ekki endilega skot í bak, þau séu skot í síðuna sem geti átt sér margvíslegar skýringar. 

Þannig geti vel verið, að mati verjanda Angjelins, að hann hafi skotið Armando til bana vegna þess að hann óttaðist um líf sitt. 

Verjandi Angjelin svarar svo Kolbrúnu Benediktsdóttir varahéraðssaksóknara, en hún vísaði í máli sínu til tveggja nýlegra dóma máli sínu til stuðnings. Vísaði hún í fyrsta lagi til Thomas Möllers, sem varð Birnu Brjánsdóttur að bana, og til þeirrar staðreyndar að hann hafi fengið 20 ára dóm. Því næst vísaði hún til málsins um brunann á Bræðraborgarstíg þar sem 14 ára fangelsisdómur féll fyrir brennu og tvöfalt manndráp. 

Verjandi Angjelin segir að sakborningar í þessum málum hafi ekki mátt þola linnulausar líflátshótanir í aðdraganda þess verknaðar er þeir frömdu og því beri dómara að dæma Angjelin til styttri fangelsisvistunar en 16 ára. Lengi hefur tíðkast að dæma í 16 ára fangelsis fyrir morð á Íslandi. 

mbl.is