Telja friðlýsingu skorta lagastoð

Sveitarfélögin eru ósátt við vinnulag ráðherra hvað varðar friðlýsingar Jökulfalls …
Sveitarfélögin eru ósátt við vinnulag ráðherra hvað varðar friðlýsingar Jökulfalls og Hvítár. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Sveitarstjórnir Bláskógabyggðar og Hrunamannahrepps lýsa yfir vonbrigðum yfir vinnulagi umhverfisráðherra við friðlýsingar vatnasviðs Jökulfalls og Hvítár í Árnessýslu, sem fram fór 16. september. Í tilkynningu frá sveitarstjórnunum er sú skoðun þeirra ítrekuð að þær telji aðgerðirnar skorta lagastoð.

Tillaga Umhverfisstofnunar frá árinu 2018 sem sveitarstjórnirnar gerðu alvarlegar athugasemdir, var að sögn sveitarfélaganna látin fara óbreytt fram í stjórnkerfinu. Laut hún að friðlýsingu vatnasviðs Jökulsfalls og Hvítár, með vísan til friðlýsinga í verndarflokki rammaáætlunar.

Töldu sveitarstjórnirnar að fráleitt væri að miða við vatnasvið alls svæðisins og leggja það undir friðlýsingu og túlkun Umhverfisstofnunar og ráðherra á friðlýsingarákvæðum náttúruverndarlaga allt of víðtæka og ekki eiga við um friðlýsingu heilu vatnasviðanna, heldur þeirra svæða sem falla í verndarflokk rammaáætlunar.

Tillagan legið óhreyfð á borði ráðherra í þrjú ár

„Rammaáætlun tekur ekki til vatnasviðs Jölulfalls og Hvítár, heldur til Gýgjarfossvirkjunar og Bláfellsvirkjunar. Töldu sveitarstjórnarirnar því að lagastoð skorti fyrir svo víðtækri friðlýsingu og lögðu til að hún næði aðeins til árfarvegs Hvítár og Jökulfalls, sem þessar virkjanir hefðu haft áhrif á og þau lónstæði sem hefðu þurft til að afla þessum tveimur virkjunarkostum orku. Friðlýsingin næði ekki til annarra hluta þess svæðis sem afmarkað var á uppdrætti sem fylgdi tillögunni, enda hefði friðlýsing á grundvelli 53. gr. náttúruverndarlaga engan tilgang utan árfarvegs viðkomandi vatnsfalla,“ segir í tilkynningu frá sveitarfélögunum. 

Að lokum ítreka þau þá skoðun sína að friðlýsing heilu vatnasviðanna hafi ekki haft nauðsynlega lagastoð.

„Þrátt fyrir þetta var tillagan látin fara óbreytt áfram í stjórnkerfinu og beiðni sveitarfélaganna um að málið yrði tekið upp að nýju að engu höfð. Tillagan lá síðan óhreyfð á borði umhverfisráðherra í þrjú ár, allt þar til í síðustu viku.  Sveitarstjórnir Bláskógabyggðar og Hrunamannahrepps lýsa yfir vonbrigðum með þetta vinnulag [...],“ segir í lokin.

mbl.is