Vill að kosningarnar verði öruggari

Jón Þór Ólafsson, þingamður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar …
Jón Þór Ólafsson, þingamður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í ræðustól í þingsal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar boðaði nefndina á fund í dag vegna áhyggna af framkvæmd komandi þingkosninga. Í dag bárust nefndinni svör frá dómsmálaráðuneytinu og var fundinum í kjölfarið aflýst.

„Við vorum ekki búin að fá skýr svör um hvað það þýðir þegar það segir að kjörstjóri og kjörstjórn skuli innsigla utan kjörfundar kassann og að umboðsmönnum lista sé jafnframt heimilt að innsigla þá með sínum innsiglum,“ segir Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í samtali við mbl.is.

Jón Þór vill að heimilað verði að innsigla rauf kjörkassa.
Jón Þór vill að heimilað verði að innsigla rauf kjörkassa. mbl.is/Brynjar Gauti

Sýnist framkvæmdin standast lög

Jón Þór segist hafa fengið ábendingu um að kjörstjóri væri ekki að heimila innsigli á raufum. „Ég fór og sannreyndi það og upplýsti ráðuneytið í kjölfarið.“

„Utan kjörfundar kjöstjóri túlkar lögin þannig að hann hafi ekki lagalega skyldu til að heimila umboðsmönnum til að innsigla raufar kassans. Þá eru það bara hliðar kassans, en ekki raufin, sem eru innsiglaðir og það hefur verið framkvæmdin síðan að lögin voru samþykkt og því sýnist mér þetta standast lög,“ segir Jón Þór. 

Kjörstjóri geti heimilað innsigli yfir rauf

Jón Þór segir að kjörstjóri geti heimilað umboðsmönnum lista að innsigla raufina á kassanum en kjósi að gera það ekki. „Árið 2017, þegar ég var umboðsmaður míns eigin lista, fékk ég innsigli yfir raufarnar þegar ég kaus utan kjörfundar í Smáralind. Þannig að þetta er ekkert sem kjörstjóri getur ekki heimilað en kjörstjórinn í dag vill ekki heimila það. Þarf af leiðandi var kominn upp lagalegur vafi.“

Að lokum bætir hann við að málið snúist um öryggi kosninganna. „Þetta snýst um það að þetta kostar kosningaathöfnina ekki neitt að heimila að leyfa innsigli yfir raufina og gerir kosningaathöfnina bara öruggari. Þetta myndi bara auka öryggi þess að vilji kjósandans skili sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert