Farbann ekki talið nauðsynlegt

Ekki hefur verið farið fram á að maðurinn sem var handtekinn í gærmorgun grunaður um kynferðisbrot verði settur í farbann. Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Greint var frá því í gær að leikmaður þýska handboltaliðsins Lemgo hefði verið handtekinn í gær hér á landi vegna gruns um kynferðisbrot. Liðið átti Evrópuleik við Valsmenn á þriðjudag en allir leikmenn Lemgo hafa nú flogið til Þýskalands nema einn.

Manninum var í gær sleppt úr haldi lögreglu og er nú frjáls ferða sinna.

Aðspurður segir Ævar Pálmi málshætti rannsóknarinnar liggja nokkuð ljóst fyrir og því var farbannið ekki talið nauðsynlegt. „Rannsókninni hefur bara miðað það vel að það þótti ekki tilefni eða ástæður til að fara fram á slík úrræði. Það var ekki nauðsynlegt á þessu stigi.“

Lögreglan vill ekki gefa upp frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Frá leik Lemgo og Vals á dögunum.
Frá leik Lemgo og Vals á dögunum. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is