Gert að greiða bætur vegna þvingunaraðgerða

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ljósmynd/Þór

Íslenska ríkinu hefur verið gert að greiða karlmanni 200 þúsund krónur auk dráttarvaxta í bætur vegna þvingunaraðgerða lögreglu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Aðdragandi málsins var sá að skipstjóri á ónafngreindum togara tilkynnti til lögreglu innbrot um borð í togarann 20. desember 2019. Innbrotsþjófurinn braust inn í skipstjórakáetu og rændi lyfjaskáp skipsins og leiddi athugun lögreglu í ljós að teknar voru 10 ambúlur af sterku morfínlyfi. 

Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu lögreglu skoðaði skipstjórinn eftirlitsmyndbönd af höfninni og sá þá að stefnandi, sem var háseti í áhöfn skipsins, hafði farið um borð í togarann í tvígang kvöldið sem innbrotið var framið. 

Í samtali mannsins við skipstjórann tjáði hinn síðarnefndi manninum að hann myndi ekki fá áframhaldandi pláss á skipinu. 

Ætlað að sækja muni sem hann ætti

Maðurinn fékk réttarstöðu sakbornings í málinu og gaf skýrslu hjá lögreglu í janúar 2020. Gaf maðurinn þær skýringar á ferðum sínum að hann hafi ætlað að sækja muni sem hann ætti, hann ekki fundið munina en verið í samskiptum við annan skipverja vegna þessa sem gæti staðfest um það. Í skýrslutökunni veitti maðurinn lögreglu heimild til að afla upplýsinga um alla farsímanotkun hans. 

Í upplýsingaskýrslu lögreglu frá því í lok maí 2020 sagði síðan að ljóst væri af upptökum úr öryggismyndavélum að maðurinn væri ekki sá sem hafði brotið sér leið um borð í skipið. Manninum var þrátt fyrir það synjað endanlega um pláss á skipinu í september 2020. 

Sumarið 2020 sendi lögmaður mannsins ríkislögmanni innheimtubréf þar sem krafist var bóta vegna tjóns sem hlotist hafði af rannsókn lögreglu og seinagangi á afgreiðslu málsins. Bótafjárhæð mannsins var hafnað en lagt var til að komist yrði að samkomulagi um 100 þúsund króna bótafjárhæð, sem maðurinn féllst ekki á. 

Í niðurstöðum héraðsdóms segir meðal annars að ríkið hafi fallist á bótarétt mannsins og að sá réttur félli ekki niður þó að maðurinn hafi sjálfur gefið heimild fyrir upplýsingaöflun lögreglu á farsímanotkun hans. Að atvikum málsins virtum taldi héraðsdómur bætur hæfilega ákveðnar 200 þúsund krónur. 

mbl.is