Ráðist á mann og bakkað á hann

Bíl var bakkað á gangandi mann sem var á leið sinni yfir götu í miðbænum í gærkvöldi. Maðurinn vildi ekki þiggja neina aðstoð og hafði ekki áhuga á að leita á bráðadeild, samt sagðist maðurinn finna til í öllum skrokknum, þó ekki eftir bílslysið heldur vegna líkamsárásar sem hann varð fyrir skömmu áður en bíllinn bakkaði á hann. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Sá sem barinn var og bakkað á var þó ekki eini maðurinn sem lenti illa í því í umferðinni í gær. 

Um klukkan átta í gærkvöldi var bíl ekið á mann á rafmagnshlaupahjóli í borginni en engin slys urðu á fólki. Ekki er hægt að segja hið sama um bifreiðina sem er töluvert skemmd, líkt og hjólið. 

Svo keyrðu sumir of hratt í gær, eins og oft áður, en bifreið var stöðvuð eftir hraðamælingu á Bústaðavegi í nótt. Þá var ökumaðurinn á tæplega tvöföldum hámarkshraða, 108. Leyfilegur hámarkshraði á Bústaðavegi er 60. Ökumaðurinn virðist hafa verið á nokkurri hraðferð en hann ók bíl sínum mjög nálægt annarri bifreið sem var á undan honum og flautaði. Lögreglan telur líklegt að hinn brotlegi hafi talið nágranna sinn á akreininni ekki keyra nægilega hratt. Hraðakstursmaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. 

mbl.is