Skjáþreytan sækir á augun og þjáir fólk á öllum aldri

AFP

Það færist í vöxt að fólk kvarti vegna þreytu í augum sem stafar af mikilli skjánotkun, að sögn Ólafs Más Björnssonar, augnlæknis hjá Sjónlagi. Þetta á ekkert síður við um yngra fólk en eldra.

„Þetta fylgir mikilli notkun tölva og snjallsíma,“ sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að þegar við beinum augunum að tölvuskjá eða síma sjái augasteinninn um að stilla fókusinn.

„Í auganu eru vöðvar sem toga augasteininn til. Ef við sitjum lengi við tölvuskjá eða snjallsíma er ekki óeðlilegt að þreyta geri vart við sig. Augasteinninn fer að stirðna strax upp úr tvítugu þótt við finnum yfirleitt ekki fyrir því fyrr en upp úr fertugu. Þá fara flestir að fá það sem við köllum ellifjarsýni,“ sagði Ólafur. „Fram að því að við fáum ellifjarsýni er ekki furða að augasteinninn geti orðið svolítið þreyttur vegna þess að við reynum svo mikið á hann.“

Þegar fólk situr lengi við tölvuskjá hefur það tilhneigingu til að blikka sjaldnar augunum en ella. Það veldur augnþurrki sem líka getur stuðlað að skjáþreytu í augum. Ólafur sagði þetta vera algengt vandamál á Íslandi þar sem hús eru vel upphituð og rakastig innandyra fremur lágt. En hvað er til ráða við skjáþreytu?

„Það er fyrst og fremst að láta mæla sjónina hjá augnlækni eða sjóntækjafræðingi til að vita hvort maður er ekki örugglega með réttu glerin miðað við fjarlægð,“ sagði Ólafur. „Margir sem finna snemma fyrir skjáþreytu hafa gott af hvíldargleraugum. Þau hjálpa augasteininum að halda fókus. Þegar fólk eldist þarf að fylgjast með styrkleika á gleraugunum.

Ef maður blikkar sjaldan augunum við skjáinn þornar tárafilman. Það að setja gervitár í augun gerir mikið fyrir þau. Eins getur gott rakastig á loftinu hjálpað. Það getur verið gott að hafa rakatæki á skrifstofunni til að bæta það.“

Ólafur segir að gleraugu eða síur sem slá á ákveðnar bylgjulengdir litrófsins geti mögulega hjálpað sumum. Stóra vandamálið sé hins vegar að við störum allt of mikið á skjái. Þess vegna geti verið gott að hvíla augun reglulega á skjá- og símanotkun og ganga t.d. á fjöll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert