Skora á stjórnvöld að íhuga áform um breytingar

Samtök yfirlækna á Landspítala skora á yfirvöld að endurskoða áform …
Samtök yfirlækna á Landspítala skora á yfirvöld að endurskoða áform um breytingar á reglugerð um blóðgjöf. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Samtök yfirlækna á Landspítala (SYL) skora á stjórnvöld að endurskoða núverandi áform um breytingu á reglugerð um blóðgjöf. Hvetja þau heilbrigðisyfirvöld til að vinna með ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu, Blóðbankanum, Landspítalanum og fleiri fagaðilum. Telja samtökin að ábyrgðaraðilar í klínískri starfsemi heilbrigðisþjónustunnar verði að geta treyst á að heilbrigðisyfirvöld hafi samráð við fagaðila í slíkum málefnum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu stjórnar SYL.

Svandís Svavarsdóttir lagði fram fyrr í mánuðinum drög að breytingum á reglugerð um söfn­un, meðferð, varðveislu og dreif­ingu blóðs. Í breytingunum kom meðal annars fram að óheimilt verði að mismuna blóðgjöfum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, svo sem kyns, kynhneigðar, uppruna eða stöðu að öðru leyti. Drögin komu úr samráðsgátt í dag.

Blóðbankinn gagnrýndi drögin

Sveinn Guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans hefur gagnrýnt drög Svandísar og segir hann þau varhugaverð. Telur hann óskynsamlegt að ráðherra leggi af stað í slíkar breytingar án þess að hafa samráð við Landspítala, blóðbankann eða ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu.

Vakti hann einnig athygli á því að Blóðbankinn hafi ítrekað komið með tillögur að því hvernig megi standa að breytingum á reglugerðum um blóðgjöf með „skynsamlegri“ hætti. Hafi það hins vegar ekki borið neinn árangur.

Telja rök Blóðbankans ítarleg

SYL taka undir mál Sveins og telja fyrirhugaðar breytingar á reglugerðinni ekki enn tímabærar. Þurfi að vinna að þessu málefni með tímasettri og áfangaskiptri umbótaáætlun svo hægt sé að auka enn frekar öryggi sjúklinga.

Blóðbankinn hefur rökstutt ítarlega í umsögn sinni að málefni þetta varði fyrst og fremst öryggi sjúklinga (blóðþega) og rétt sjúklinga til að þiggja örugga blóðhluta. Blóðbankinn hefur gert vel grein fyrir tímaáætlun um mikilvæga áfanga á þeirri leið að auka öryggi blóðhluta, í takt við tillögur ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu frá 2019,“ kemur fram í yfirlýsingunni.

Segir þá jafnframt að árangursríkasta leiðin að farsælli niðurstöðu í þessu máli er að heilbrigðisyfirvöld hafi samráð við viðkomandi fagaðila að hverju sinni. „Á það [sérstaklega] við í svo viðkvæmri og flókinni þjónustu eins og þeirri sem lýtur að kjarnastarfsemi Blóðbankans. Slíkt samráð er forsenda þess að hægt sé að veita ábyrga þjónustu með öryggi sjúklinga að leiðarljósi.“

Heilbrigðisráðherra hefur ekki viljað tjá sig um drögin á meðan þau eru í samráðsgátt en því lauk í gær. Mbl.is reyndi án árangurs að ná sambandi við Svandísi í dag.

mbl.is