Þykir vænt um stuðninginn

Aðeins sökklar kirkjunnar standa eftir.
Aðeins sökklar kirkjunnar standa eftir. Ljósmynd/Svafar Gylfason

Grímseyingar hafa fengið mikinn stuðning víðs vegar af á landinu eftir að Miðgarðakirkja brann til kaldra kola fyrr í vikunni. Allir eru þeir sammála um að byggð verði ný kirkja sem allra fyrst.

„Það er rosalega mikill hugur í okkur að fá nýja kirkju í hvelli. Ég held að við munum stefna að því eins og kostur er að koma því í gang sem fyrst,” segir Svafar Gylfason, slökkviliðsstjóri í Grímsey, en íbúar Grímseyjar funduðu í fyrrakvöld eftir eldsvoðann.

Miðgarðakirkja, kirkjan í Grímsey, var mjög falleg en er nú …
Miðgarðakirkja, kirkjan í Grímsey, var mjög falleg en er nú brunnin. mbl.is/Sigurður Ægisson

„Það er ótrúlegur hlýhugur sem við erum búin að fá frá ótrúlegasta fólki. Fólk er búið að hringja og leggja pening inn á kirkjuna og það er mikill stuðningur sem við heyrum alls staðar af á landinu. Okkur þykir voðalega vænt um hvað margir eru að hugsa til okkar," segir hann. 

Spurður út í kostnað við nýja kirkju kveðst hann ekki vita hver hann gæti orðið. Einnig er óljóst hvernig kirkjan myndi líta út en vilji er hjá íbúum Grímseyjar fyrir því að hafa hana sem líkasta þeirri gömlu.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra skoðaði vettvanginn í fyrradag og í dag er von á fólk frá tryggingunum. Eftir það ætti að vera hægt að hreinsa upp svæðið, að sögn Svafars.

Ekki náðist í rannsóknardeildina við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is