„Við loftslagið verður ekki samið“

Titill verkfallsins í dag er „settu x við loftslagið.
Titill verkfallsins í dag er „settu x við loftslagið. mbl.is/Unnur Karen

Í dag boðuðu Ungir umhverfissinnar til loftslagsverkfalls við Austurvöll til að mótmæla ófullnægjandi aðgerðum íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum og til að hvetja almenning að kjósa með loftslagið í huga.

„Í dag er allsherjarverkfall á allri jörðinni sem kallast „uproot the system“ sem passar ágætlega við daginn fyrir kosningar hérna á íslandi fyrir tilviljun,“segir Egill Ö. Hermannsson, varaformaður Ungra umhverfissinna.

„Titill verkfallsins í dag er „settu x við loftslagið“ og það er settu x við loftslagið af því að helmingurinn hér má ekki kjósa, þannig að við verðum að skipa hinum fyrir. Við loftslagið verður ekki samið, loftslagsbreytingarnar koma hvort sem við viljum það eða ekki. Það sem við verðum að gera er að berjast gegn þeim.“

mbl.is/Unnur Karen

Segist hálfánægður með mætingu frambjóðenda

Egill segir verkfallið í dag vera það langstærsta síðan fyrir Covid. Þá segir hann að þau hafi boðið öllum þeim að mæta sem vilja krefjast alvöru aðgerða í loftslagsmálum og einnig sérstaklega flokksmönnum og ungliðahreyfingum flokkanna.

„Við erum að sjá kannski helminginn af flokkunum mæta, hinn helmingurinn hefur kannski ekki haft tíma eða hefur mikilvægari hnöppum að hneppa, samkvæmt þeim. Ég er hálfánægður með mætingu flokksmanna.“

„Í þessu máli á að ríkja fullkomin samstaða, þetta er ekki skoðun heldur erum við að tala um að vísindasamfélagið er að segja okkur þetta.“

Ásthildur Emilía Þorkelsdóttir.
Ásthildur Emilía Þorkelsdóttir. mbl.is/Unnur Karen

Krefjast alvöru aðgerða í loftslagsmálum

Fjölmargir aðgerðarsinnar fóru með erindi við góðar undirtektir mótmælenda og náði mbl.is tali við nokkra þeirra.

„Ég er hér í dag því ég er hrædd um líf mitt. Ég veit ekki hvað mun gerast. Ég verð 54 ára ára þegar við eigum að vera búin að bjarga þessu, þetta er komið svo nálægt okkur og ég veit ekki hvernig líf mitt mun vera orðið eftir tíu ár,“ sagði Ásthildur Emelia Þorgilssdóttir við mbl.is eftir að hún hafði farið með tilfinningaþrungið erindi á mótmælunum.

„Ég er pirruð og reið og ég nenni ekki lengur að halda kjafti.“

Birnir Jón Sigurðsson.
Birnir Jón Sigurðsson. mbl.is/Unnur Karen

„Ég er hér í dag til þess að krefjast alvöru aðgerða í loftslagsmálum, eins og við höfum verið að gera í 146 skipti hér á Austurvelli. Á næsta kjörtímabili vil ég sjá allsherjar stefnubreytingu sem tekur mið af loftslagsbreytingum. Við höfum alltof mikið verið bara í miðjumóði og verið tvístíga, vitum ekki hvert við eigum að stefna í stað þess að taka afgerandi stefnu og reyna að bjarga málunum,“ sagði Birnir Jón Sigurðsson, rithöfundur og sviðslistamaður.

„Það er mikilvægt að ungt fólk mæti hingað og láti hug sinn ljós en mikilvægast er náttúrulega fyrir pólitíkusa að hlusta á þær kröfur sem við höfum verið að gera hér í núna tvö og hálft ár, sem eru alvöru aðgerðir og núna. Enn sem hefur komið hefur það ekki verið staðan.“

mbl.is/Unnur Karen
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert