Búast við 2.200 áhorfendum á stórleikinn í Víkinni í dag

Víkingar undirbjuggu vallarsvæðið í Víkinni í gær fyrir stórleikinn í …
Víkingar undirbjuggu vallarsvæðið í Víkinni í gær fyrir stórleikinn í dag. Frá vinstri eru Benedikt Sveinsson verkefnastjóri, Fannar Helgi Rúnarsson íþróttastjóri og Haraldur Haraldsson framkvæmdastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta mjakast ágætlega hjá okkur og við verðum klár í baráttuna,“ segir Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings.

Lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu karla verður leikin í dag klukkan 14. Óvenjumikil spenna er fyrir leikjum dagsins enda er Víkingur Reykjavík flestum að óvörum í kjörstöðu. Víkingar mæta Leikni úr Breiðholti á heimavelli og sigur í þeim leik tryggir fyrsta Íslandsmeistaratitilinn síðan 1991. Á sama tíma mætir Breiðablik, sem er í öðru sæti deildarinnar stigi á eftir Víkingi, grönnum sínum í HK. Tvö lið geta því orðið meistarar og önnur tvö berjast um það hvort þeirra fylgir Fylki niður í Lengjudeildina.

Allir áhorfendur í hraðpróf

Uppselt er á leikinn í Víkinni og að mörgu er að huga fyrir Harald og samstarfsfólk hans. Á tímum samkomutakmarkana er farið fram á að áhorfendur framvísi neikvæðu hraðprófi við innganginn. Af þeim sökum mega Víkingar taka á móti 1.500 áhorfendum auk barna og ungmenna.

„Gamla vallarmetið er um 1.800 áhorfendur. Ég hugsa að það verði 2.200 hjá okkur núna. Það er búið að selja alla 1.500 miðana og ég geri ráð fyrir nokkur hundruð krökkum. Þetta verður alvöru stappa. Ég veit ekki hvernig við förum að þessu,“ segir hann og skellir upp úr.

Stúkan í Víkinni tekur 1.100 manns í sæti en auk þess verða stæði fyrir 400 fullorðna. „Allt áhorfendasvæðið er eitt svæði. Það er bara einn inngangur og það geta allir farið í sömu sjoppuna. Við verðum með app frá landlæknisembættinu sem skannar QR-kóðann á hraðprófi sem fólk sýnir,“ segir Haraldur.

Hann kveðst ekki hafa áhyggjur af öngþveiti en hvetur fólk þó til þess að mæta tímanlega og skilja bílinn eftir heima ef það er unnt. „Við opnum klukkan 12 með húllumhæi og biðjum fólk að mæta tímanlega. Við höfum biðlað til fólks í hverfinu að koma gangandi eða hjólandi og aðra að sameinast í bíl. Eins vonum við að íbúar í hverfinu sýni okkur þolinmæði. Það verður þungt ástand varðandi bílastæði og við vonum líka að lögreglan sýni því skilning. Þetta er þjóðfélagslega mikilvægur viðburður, rétt eins og bólusetning í Laugardalshöll, svo við vonum að þeir sleppi því að sekta,“ segir hann og skellir upp úr.

Aðspurður segir Haraldur að mikil stemning og tilhlökkun sé í Fossvoginum. „Við höfum ekki verið í þessum sporum síðan 1991 og fólki finnst vera tími kominn til,“ segir hann en ítrekar þó að ekkert sé enn í hendi. „Leiknir er annað af þeim tveimur liðum sem við höfum tapað fyrir í sumar. Það fæst ekkert gefins.“

Góð stemning í Kópavogi

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, segir að mikið hafi verið lagt í undirbúning fyrir leikinn í dag. „Við erum í ofanálag með stóran kjörstað í Smáranum þannig að það verður nóg af fólki hérna. En við erum með gott fólk í að stýra mannskapnum og höfum biðlað til fólks að koma helst gangandi,“ segir hann.

Miðasala á leikinn hefur gengið vel að sögn Eysteins. „Við seljum bæði í gömlu og nýju stúkuna og núna eru rétt undir þúsund miðar seldir. Við ættum að geta tekið á móti hátt í 1.300 manns þegar allt er talið,“ sagði Eysteinn um hádegisbil í gær.

Hann segir að góð stemning sé í bænum fyrir leiknum enda möguleiki á titlinum og ekki skemmir fyrir að andstæðingarnir eru grannarnir í HK. „Kópavogsslagur, það eykur bara á stemninguna,“ segir Eysteinn sem kveður Blika ekki hafa gefið upp vonina um Íslandsmeistaratitilinn þó Víkingar standi með pálmann í höndunum. „Númer 1, 2 og 3 er að þetta eru tvö frábær lið sem eru að berjast um titilinn. Við verðum bara að klára okkar leik og svo kemur þetta í ljós. Við setjum kassann út og hausinn upp. Svo sjáum við hvað gerist rétt fyrir klukkan fjögur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »