Dregur úr kjörsókn á höfuðborgarsvæðinu

Graf sem sýnir kjörsókn á hverjum klukkutíma í báðum Reykjavíkurkjördæmunum.
Graf sem sýnir kjörsókn á hverjum klukkutíma í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Graf/Reykjavíkurborg

Dregið hefur úr kjörsókn á höfuðborgarsvæðinu en hlutfall þeirra sem hafa nú greitt atkvæði sitt er lægra í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi en í síðustu alþingiskosningum árið 2017 ef miðað er við sama tíma dags.

Kjörsóknin fór vel af stað í morgun en hlutfall þeirra sem greitt höfðu atkvæði þá var aðeins hærra ef miðað var við kjörsóknina í síðustu alþingiskosningum. Eftir því sem liðið hefur á daginn hefur þó dregið úr því og benda tölurnar nú til þess að hlutfall þeirra sem greitt hafa atkvæði sé minna en árið 2017.

Klukkan fimm í dag höfðu 41,2% af kjörskrárstofni í Suðvesturkjördæmi kosið, er það 3,4 prósentustigum minna en kjörsóknin klukkan 17 í síðustu alþingiskosningum í sama kjördæmi. 

Það sama má segja um Reykjavíkurkjördæmin en klukkan 18 í dag var kjörsóknin í báðum kjördæmum 48,28%, en árið 2017 var hún 51,8% á sama tíma dags.

Næstu kjörsóknartölur frá Suðvesturkjördæmi munu berast eftir klukkan 20. Tölurnar úr Reykjavíkurkjördæmunum eru uppfærðar á hverjum klukkutíma á vefsíðu borgarinnar.mbl.is