Esjuskaflinn í skarðinu hverfur ekki í ár

mbl.is/Sigurður Bogi

Aldrei fór svo þetta árið að skaflinn í Gunnlaugsskarði austanvert í Esjunni hyrfi með öllu. Hver örlög hans verða þykir jafnan segja nokkra sögu um hitastig og veðurfar hvers árs. Skaflinn lifði af sumarið 2020 en 2019 hvarf hann með öllu. Það ár var lítil snjóskella, sem sást vel úr borginni, uppi við efstu brún fjallsins en var bráðnuð þegar langt var liðið á september.

Langt fram eftir líðandi septembermánuði nú sást vel að skaflinn gaf sífellt meira eftir. Slíkt var í raun samkvæmt aðstæðum því kalt var í veðri fram á sumarið 2021 sem almennt var úrkomulítið. Nú í vikunni fór svo að kólna og Esjan, sem hæst er 914 metra há, er komin með hvítan koll sem nær frá miðju fjalli og þaðan til austurs.

Búast má við að meira gráni í Esjunni á næstu dögum, skv. veðurspám, en ekkert er hægt að segja til um framhaldið því oft getur verið ágætt veður á landinu langt fram í október. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert