Hver verður arftaki Merkel?

Kosið verður á morgun um hver muni taka við af …
Kosið verður á morgun um hver muni taka við af Angelu Merkel sem kanslari Þýskalands eftir 16 ára langa og merka valdatíð. Allt stefnir í að kristilegu flokkarnir muni tapa fylgi og að stjórnarmyndun verði erfið. AFP

Þjóðverjar munu taka þátt í sögulegum þingkosningum á morgun, sunnudag, en þær boða endalok valdatíðar Angelu Merkel Þýskalandskanslara, sem setið hefur í embættinu í 16 ár, næstlengst á eftir Helmut Kohl.

Er þetta í fyrsta sinn frá stofnun Vestur-Þýskalands 1949 sem sitjandi kanslari sækist ekki eftir endurkjöri, og ríkir því nokkur óvissa um hvert framhaldið verður fyrir Þýskaland og Evrópusambandið, hver sem eftirmaður Merkel verður.

Kosningabaráttan hefur borið þess merki, þar sem kristilegu flokkarnir tveir, CSU í Bæjaralandi og CDU í hinum sambandslöndunum, féllu skarpt í könnunum eftir miðjan júlí, en þá varð Armin Laschet, formaður CDU, uppvís að því að hlæja við minningarathöfn um fórnarlömb flóðanna í sumar. Það atvik, ásamt fleiri mismælum og mistökum, varð til þess að fylgi kristilegu flokkanna féll úr 29% fylgi niður í um 21% í byrjun september.

Það stefnir því í versta afhroð kristilegu flokkanna frá stríðslokum, einmitt þegar hvað mest þykir undir í kosningunum. „Allir vita: Ef Laschet tapar, er arfleifð Merkel glötuð líka,“ sagði hið borgaralega blað Die Welt, en flestir stjórnmálaskýrendur eru á því að verði úrslitin á þann veg sem kannanir sýni, muni kristilegu flokkarnir vart eiga tilkall til setu við ríkisstjórnarborðið, hvað þá kanslaraembættið.

Laschet, sem einnig er forsætisráðherra sambandslandsins Norðurrín-Vestfalía er hins vegar vanur því að ná að snúa töpuðu tafli sér í vil, og síðustu kannanir fyrir kosningar benda til þess að kristilegu flokkarnir séu að rétta úr kútnum, en þeir mælast nú með 23% fylgi, einungis tveimur prósentustigum á eftir helsta keppinauti sínum, Sósíaldemókrataflokknum SPD.

Kanslaraefni þeirra er hinn 63 ára Olaf Scholz, fjármálaráðherra og varakanslari, en hann hefur setið fyrir SPD í þremur af fjórum ríkisstjórnum Merkels. Þykir Scholz vera fær stjórnmálamaður, en kannski heldur litlaus. Að sama skapi hafa mistök Laschets hjálpað Scholz að skapa sér þá landsföðurlegu ímynd sem mögulegur eftirmaður Merkel þarf að hafa.

Græningjar í lykilstöðu

Fylgi SPD hefur verið frekar stöðugt í kringum 25-26% á undanförnum vikum, en bilið á milli sósíaldemókrata og kristilegu flokkanna þykir nú vera innan skekkjumarka.

Græningjar eru síðan líklegastir til þess að verða þriðji stærsti flokkurinn á þingi, en fylgi þeirra í könnunum hefur mælst um 16%. Verði það raunin lenda Græningjar og Annalena Baerbock, kanslaraefni þeirra, í lykilstöðu varðandi myndun nýrrar ríkisstjórnar, þar sem tæplega yrði hægt að ganga fram hjá flokknum til að tryggja nýrri stjórn meirihlutafylgi.

Fari kosningarnar á þann veg sem kannanir benda til, gætu stjórnarmyndunarviðræður raunar dregist nokkuð á langinn. Laschet hefur lýst því yfir að hann muni sækjast eftir því að mynda ríkisstjórn með Græningjum og Frjálslyndum demókrötum, FDP, en slíkt stjórnarmynstur er stundum kallað „Jamaíkustjórn“ í þýskum fjölmiðlum, því litir flokkanna þriggja eru einnig í þjóðfána Jamaíku.

Græningjar hafa hins vegar lýst því yfir að þeir vilji heldur vinna með SPD ef kostur er á. Þá kæmi til greina að taka vinstriflokkinn Die Linke eða Vinstrið með, en hann er arftaki austurþýska kommúnistaflokksins. Slík stjórnarmyndun væri hins vegar fordæmalaus, þar sem vinstrimenn hafa m.a. lýst yfir andstöðu við veru Þýskalands í Atlantshafsbandalaginu. Merkel, sem ólst upp í Austur-Þýskalandi, hefur því óspart fordæmt Scholz og SPD sérstaklega fyrir að útiloka ekki Vinstri frá stjórnarsetu. Hafði það mögulega áhrif á að Scholz lagði sérstaka áherslu á stuðning sinn við þátttöku Þjóðverja í bandalögum vestrænna þjóða í síðustu leiðtogakappræðunum fyrir kosningar, sem fóru fram í fyrradag.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert