Laganemar HÍ ósáttir vegna klúðurs

Lögberg, bygging laganema við HÍ.
Lögberg, bygging laganema við HÍ. Ljósmynd/HÍ

Óheppilegt atvik átti sér stað í fyrsta prófi fyrsta árs laganema við Háskóla Íslands í morgun. Lagasafnið sem laganemarnir áttu að hafa aðgang að bilaði og fengu þau ekki aðgang að lagasafni fyrr en um 90 mínútur voru liðnar af prófinu.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is var lagasafnið, sem nemendurnir fengu aðgang að, ekki með leitarvél, eins og það átti að vera, og tók það því lengri tíma fyrir nemendur að finna lagabálka. 

Sigurður Ingi Árnason, prófstjóri prófsins, segir að prófið hafi aldrei stoppað og nemendur hafi mætt þeim með miklum skilningi. 

„Alls ekki í lagi“

Inni á facebookhópi fyrsta árs laganema hafa nemendur tjáð skoðanir sínar á atvikinu og eru margir ósáttir. Einn skrifar að þetta hafi „alls ekki verið í lagi“ og annar segir að þetta hafi verið óviðunandi þar sem biðin var löng og mikið vesen að þurfa að fara úr prófinu í nýtt.

Einn laganemi kallar eftir því að kennarar komi til móts við þá. „Mér fannst þetta alveg óboðlegt. Myndi vilja að kennararnir kæmu einhvern veginn til móts við okkur því þetta voru ekki eðlilegar kringumstæður.“

Samkvæmt upplýsingum frá prófstjóra fengu nemendur aukalega 50 mínútur. Einn laganemi skrifar að tvisvar hafi verið komið inn í stofu þeirra og tímanum sem þau áttu að fá aukalega breytt. Nemandinn segir það hafa verið stressandi.

Nemendur furða sig einnig á því að enginn kennari hafi komið inn í stofurnar til að svara spurningum þeirra.

Lögberg.
Lögberg. mbl.is/Hjörtur

Prófið stoppaði ekki

„Prófið stoppaði aldrei. Þau gátu unnið og margir skiluðu prófinu án þess að nota lagasafnið eða voru með útprentuð lög. Það tók um 90 mínútur að stofna nýtt próf og leiðbeina þeim hvernig þau áttu skipta á milli,“ segir Sigurður Ingi prófstjóri í samtali við mbl.is.

Sigurður segir smá hnökra hafa verið hjá sumum nemendum er þeir skiptu yfir í nýja prófið. „Lausnin virkaði þegar hún var komin. Það voru smá hnökrar eftir því hvernig tölvu nemendur voru með.“

Þá segir Sigurður nemendur hafa verið þakkláta þegar þeir fengu aðgang að lagasafninu. „Við mættum almennt mjög miklum skilningi og þau voru þakklát þegar þau komust inn en auðvitað skiljum við að þetta er ekki á bætandi á prófstress.“

Nemendur ættu ekki að ergja sig

„Þeir prófverðir sem ég talaði við sögðu að nemendur hefðu tekið þessu ótrúlega vel enda er það gömul saga og ný að þú bjargar engu þegar þú lendir í svona vandræðum með því að ergja þig,“ segir Hreinn Pálsson prófstjóri.

Samkvæmt upplýsingum frá prófstjóra fengu laganemarnir 50 mínútur aukalega og kláruðu allir innan þess tíma, sem ekki þurftu að sérúrræðum að halda. 

Ekki er vitað hvað fór úrskeiðis en það er nú til skoðunar hjá tæknideild skólans. 

mbl.is