Stolt af því að þrauka

„Ef ég get enn komið orku tónlistar okkar til skila …
„Ef ég get enn komið orku tónlistar okkar til skila fyrir framan áhorfendur, þá er ég ánægð að gera það. Það er mín vinna,“ segir Debbie Harry, söngkona Blondie sem sést hér í blæjubíl í Havana þar sem tónlistarstuttmynd hennar var tekin upp.

Debbie Harry var og er alltaf töff týpa; hún fór eigin leiðir í klæðaburði og lagði línur í tísku sem tónlist. Hún hefur lifað tímana tvenna en bandið sló fyrst í gegn á áttunda áratug síðustu aldar og er enn að spila fyrir áhorfendur sem fá ekki leið á Blondie.

Debbie, sem er 76 ára en lítur út fyrir að vera um fimmtugt, er sannarlega íkon í tónlist. Hún gaf sér tíma í vikunni til að spjalla í síma við blaðamann sem sló á þráðinn yfir hafið, en von er á Debbie hingað í næstu viku í boði kvikmyndahátíðarinnar RIFF. Hún mun verða viðstödd frumsýningu á stutttónleikamyndinni Blondie: Að lifa í Havana, sem fjallar um langþráða tónleikaferð hljómsveitarinnar til Kúbu. Myndin verður sýnd í Háskólabíói laugardaginn 2. október og í kjölfarið mun Debbie eiga samtal við Andreu Jónsdóttur útvarpskonu, Berg Ebba Benediktsson og áhorfendur í sal og má kaupa miða hér. 

 „Ég hef aldrei komið til Íslands og hlakka mikið til. Mig hefur lengi dreymt um að koma til Íslands með bandið en sá draumur hefur ekki ræst, þannig að ég er svakalega spennt að koma,“ segir Debbie og segist ætla að nota tækifærið til að skoða sig um, jafnvel sjá eldgosið.

„Mig langar að sjá náttúruundrin sem þið hafið þarna. Allir sem fara til Íslands vilja sjá og upplifa náttúruna og ég ætla líka bara að vera venjulegur túristi.“

Ótrúlegt að spila í Havana

Það hafði verið draumur Debbie í áratugi að fara til Kúbu, en erfitt hefur reynst fyrir Bandaríkjamenn að ferðast þangað vegna ferðahafta. Þegar glufa opnaðist og ferðabanni var aflétt um hríð notaði Debbie tækifærið.

„Það var ótrúlegt að fara þangað og spila tónlist með innfæddum og ná að tengjast fólkinu þar. Ég er svo heppin að fá þetta tækifæri,“ segir hún en með í för var kvikmyndateymi til að taka upp tónlist og upplifun Blondie í Havana.

Debbie Harry söng með kúbversku tónlistarfólki þegar hún var í …
Debbie Harry söng með kúbversku tónlistarfólki þegar hún var í Havana á Kúbu og skemmti sér vel. Ljósmyndir/Guy Furrow

„Það var alltaf inni í myndinni að skrásetja ferðina og festa á kvikmynd og svo þróaðist sú hugmynd, þökk sé leikstjóranum Rob Roth og umboðsmanninum okkar Thomas Manzi. Þeir ýttu verkefninu áfram og við fengum að kvikmynda og úr varð þessi mynd,“ segir hún og segist afar ánægð með útkomuna á myndinni sem Íslendingar fá nú að sjá.

„Mér finnst hún mjög falleg. Ég vildi óska að við hefðum geta skotið meira en mér finnst myndin hafa yfir sér eins konar draumkenndan blæ og alveg sértakan stíl,“ segir Debbie og segir dvölina þar hafa haft áhrif á sig.

„Það er dapurlegt að hugsa til þess að Bandaríkin hafa átt sinn þátt í baráttu og erfiðleikum þessa dásamlega lands. Ég veit af eigin raun að erfiðleikar eru oft til þess að maður berst af meiri hörku en ég hefði viljað hafa þetta öðruvísi. Og þó ég sé kannski ekki sammála stjórnarháttum á Kúbu, þá er verið að gera ýmislegt gott í lista- og heilbrigðismálum. Þarna eru frábærir listamenn og tónlistamenn sem halda í gamlar hefðir og það er mjög dýrmætt.“

Tjáningin var besti hæfileikinn

Blaðamaður varar Debbie við og segist ætla næst að hverfa aftur í tímann, langt aftur í tímann.

Þegar þú varst lítil, dreymdi þig um að verða söngkona eða kannski leikkona?

„Þegar ég var lítil stúlka dreymdi mig um að verða kvikmyndastjarna, sem er kannski barnaleg útgáfa af því hvað ég vildi svo gera í lífinu. Í raun vildi ég verða einhvers konar sviðslistamaður, hvort sem það yrði söngkona eða leikkona. Ég hafði kannski enga sérstaka sönghæfileika en ég held að hæfileikar mínar hafi legið í tjáningu. Að fá hugmyndir og tjá tilfinningar var besta vöggugjöfin. Ég átti alltaf auðvelt með að skilja tónlist; ég er með mjög gott eyra fyrir tónlist.“

Nú byrjaði þinn ferill á áttunda áratugnum með Blondie í New York. Einkenndist þessi tími af „sex, drugs and rock & roll“?

Debbie hlær.

„Já, það var klárlega besti parturinn af því; við vorum ung, ástfangin, að spila tónlist, og tilheyrðum músíksenunni sem var á CBGB-klúbbnum í New York. Í grunninn vorum við mestmegnis að skemmta okkur vel, við bjuggum til tónlist, hittum mjög margt áhugavert fólki og við vorum að skapa.“

Hljómsveitin Blondie eins og hún var árið 1977. Frá vinstri …
Hljómsveitin Blondie eins og hún var árið 1977. Frá vinstri má sjá Gary Valentine, Clem Burke, Debbie Harry, Chris Stein og Jimmy Destri. Hljómsveitin sló í gegn á þessum árum svo um munaði.

Man best litlu hlutina

Kom það á óvart að slá í gegn?

„Kannski smá, en hverjum þeim sem byrjar í bandi líður eins og stórstjörnu að spila um allan heim, það er draumurinn sem fylgir því og við Chris [Stein] hugsuðum um okkur á þann hátt. Ég held að margir í dag í bransanum hafi miklu betri grunn,“ segir hún og bætir við:
„Ég held að fólk horfi öðruvísi í dag á tónlistarsenuna. Við vorum hluti af hópi fólks sem voru brautryðjendur; það var nýtt tímabili í tónlistarsögunni að hefjast á þessum tíma þar sem fólk gerði sér grein fyrir að vinsæl tónlist var alvöru og væri komin til að vera. Ég man þegar ég var krakki var oft sagt um slíka tónlist að hún væri rusl og myndi ekki endast,“ segir Debbie og segir hljómsveitina hafa tilheyrt nýrri kynslóð tónlistarmanna.

„Við tilheyrðum pönk-tímabilinu en það var ekki endilega það nafn sem átti við okkar tónlistarstíl, heldur frekar senuna á þeim tíma. Ég held að orðið nýbylgja hafi verið búið til af plötufyrirtækjunum því þeim fannst pönkið ekki söluvænt,“ segir Debbie og segir margt standa upp úr þegar hún horfir til baka yfir samstarfið við strákana í Blondie.

„Ég man best litlu hlutina, eins og spjall, göngutúra saman og að verja tíma með Chris. Að hlæja saman. Þessar stundir geymi ég í hjarta mínu. Auðvitað man ég líka stóru atburðina, eins og þegar við túruðum með Iggy Pop og David Bowie. Guð minn góður, við vorum öll agndofa, alla vega ég!“ segir hún og hlær.

Hlakkar til að fá að spila

Ertu enn að koma fram á tónleikum?

„Já, algjörlega. Auðvitað hefur kórónuveiran sett mikið strik í reikninginn og við höfum þurft að bíða með tónleika, en hver taug í mínum líkama vonar að ég fái að spila á ný. Við erum bókuð næsta vor og ég hlakka mikið til. Öll bönd vilja spila, þetta er okkar líf og lífsviðurværi, en við tökum enga sénsa núna með veiruna. Það hefur verið alveg vonlaust fjárhagslega að fara að túra og þurfa að taka sénsinn á að þurfa að aflýsa tónleikum,“ segir Debbie og segir faraldurinn hafa haft gríðarleg áhrif á sig.

„Það eina góða er að ég hef haft meiri tíma til að semja nýtt efni, en fæ auðvitað ekki tækifæri til að prófa það fyrir framan áhorfendur,“ segir Debbie og segist enn vera að semja mikið af tónlist.

„En í náinni framtíð munum við koma saman og spila.“

Fólk vill enn hlusta á Blondie

Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?

 „Ég vakna, fæ mér kaffi og hleypi hundunum út. Ég hef búið fyrir utan borgina núna í faraldrinum en keyri gjarnan til borgarinnnar og hitti fólk. Ég hef nóg að gera. Umboðsmaðurinn minn heldur mér upptekinni. Við erum að hleypa af stokkunum alls konar verkefnum þó tónleikahald sé ekki á dagskrá þessa dagana. Í gærkvöldi fór ég á opnun á New York-ballettinum, sem var afar falleg og spennandi sýning. Núna hef ég kannski meiri tíma í slíkt því í venjulegu árferði væri ég að túra.“

Debbie flott á sviði og slær ekki af, enda á …
Debbie flott á sviði og slær ekki af, enda á hún nóg eftir þrátt fyrir að vera orðin 76 ára.

Nú ertu orðin 76 ára, ertu ekkert að fara á eftirlaun?

„Ég þarf að skapa, það er vírað í heilann á mér. Ég vil auðvitað ekki líta út eins og kjáni á sviði, kona á mínum aldri. En fólk elskar tónlist og vill enn hlusta á Blondie-tónlist og því vil ég halda því áfram. Ef ég get enn komið orku tónlistar okkar til skila fyrir framan áhorfendur, þá er ég ánægð að gera það. Það er mín vinna.“

Við gáfumst aldrei upp

Þú hefur lifað spennandi lífi. Hverju ertu stoltust af þegar þú horfir til baka?

 „Ja hérna, það er erfitt að svara þessu. Ég veit ekki hvort það sé eitthvað eitt sem ég er stoltust af. Ég hugsa það sé sú staðreynd að við gáfumst aldrei upp,“ segir Debbie og segir hljómsveitina hafa gengið í gegnum misgóða tíma.

„En við þraukuðum og ég verð alltaf stolt af því.“

Hægt er að sjá stiklu úr myndinni hér. 

Ítarlegt viðtal við Debbie Harry er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »