Svakaleg ferð í stanslausum flúðum

Um mikla svaðilför var að ræða.
Um mikla svaðilför var að ræða. Ljósmynd/Viking Rafting

Straumvatnshópur frá Hjálparsveit Skáta í Kópavogi og Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík fór í mikla svaðilför á dögunum þegar lagt var upp í flúðasiglingu niður Austari-Jökulsá. Förin hófst uppi á hálendi nálægt Laugafelli og lauk niðri í Skagafirði. Leiðin, sem er hátt í 70 km löng, var farin á tveimur dögum.

Hafþór Sigurðsson úr Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík segir að þessi leið sé sjaldan sigld. Í þetta skipti hafi mikið rennsli verið í ánni, eða um 100 rúmmetrar á sekúndu en yfirleitt er rennslið um 70 rúmmetrar á sekúndu. „Þetta var alveg svakaleg ferð,“ segir hann.

Sautján manns fóru í siglinguna, eða tólf úr björgunarsveitunum tveimur sem stóðu að ferðinni og fimm manns frá fyrirtækinu Viking Rafting.

Ljósmynd/Viking Rafting

Straumsvatnshópar innan björgunarsveitanna sérhæfa sig í að bjarga fólki úr ám, eins og algengt er til dæmis úr Ölfusá eða Krossá, og eru þeir sérmenntaðir í slíkum aðstæðum.

Slegnir út af laginu

„Þetta var gríðarleg svaðilför,“ segir hann um flúðasiglinguna. Sem dæmi um það hafi menn með áratugareynslu í faginu verið hálfslegnir út af laginu yfir því hvað upplifunin var rosaleg. „Þetta var bæði krefjandi og gaman en þjálfunin okkar skilaði því að þetta var hægt. Þetta var ekki fyrir þá sem eru að fara í fyrsta skipti.“

Erfiðleikastigum í flúðasiglingum er skipt upp í sex flokka og þetta slagaði upp í flokk númer fimm, sem þýðir að ef einstaklingur fellur frá borði er erfitt að komast í land án verulegs hnjasks. 

Ljósmynd/Viking Rafting

Á fullu í 15 mínútur

„Þetta voru langir kaflar af stanslausri aksjón. Það sem gerði þetta sérstakt er hversu viðstöðulausar flúðirnar voru. Það komu þriggja kílómetra kaflar af stanslausri aksjón sem er meira en venjan er þegar það kemur kannski stór flúð en svo rólegir kaflar þess á milli. Þarna var þetta kannski korter sem þú stoppaðir ekki,“ lýsir Hafþór og bætir við að þetta hafi ekki bara verið skemmtiferð heldur líka æfing fyrir straumvatnsbjörgunarmenn svo að þeir verði vanir og líði vel í miklu vatni.

Sjálfur hafi hann ekki verið hræddur heldur hafi adrenalínið tekið völdin á meðan hann var upptekinn í allri aksjóninni. Einnig sé hópurinn vel þjálfaður í krefjandi aðstæðum. „Þetta var gríðarlega erfitt líkamlega en rosalega skemmtilegt,“ segir hann.

Ljósmynd/Viking Rafting
mbl.is