Telur ólíklegt að atkvæðin muni ekki skila sér

Ingi Tryggvason formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi telur ólíklegt að veðrið …
Ingi Tryggvason formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi telur ólíklegt að veðrið muni draga úr kjörsókn í kjördæminu. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta mun kannski tefjast en þetta mun takast,“ segir Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, um flutning og talningu atkvæða frá Vestfjörðum.

Gul viðvörun tekur gildi á hádegi á morgun á Vestfjörðum og gæti veður sett strik í reikninginn varðandi atkvæðatalningu fyrir Alþingiskosningarnar sem fara nú fram. Flytja þarf öll atkvæðin í Norðvesturkjördæmi til Borgarness þar sem þau verða talin. 

„Við höfðum svona smá áhyggjur en þetta mun takast með einhverjum hætti. Það er hvasst en það er engin ofankoma enn þá. Þetta verður leyst með einhverjum hætti. Annað hvort verður mokað eða þá að björgunarsveitin mun koma til þess að aðstoða við þetta,“ segir Ingi.

Kjörstaðir verða almennt opnir til klukkan 22 í kvöld en að sögn Inga mun það taka fjóra til fimm klukkustundir að keyra atkvæðin frá þeim kjörstöðum sem eru lengst frá Borgarnesi á áfangastað, að því gefnu að ekkert komi upp á. „Ef allt gengur vel þá eru fyrstu atkvæðin að koma hingað klukkan tvö um nótt.“

Telur hann ekki að veðrið muni hafa áhrif á að fólk mæti á kjörstað og segir hann kjörsóknina í kjördæminu yfirhöfuð vera góða. Rétt fyrir fjögur var kjörsóknin að nálgast í 35%. „Það er heldur meira en síðast.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert