Endar frægt fólk svona?

Louis R. Torres þakkar Guði fyrir að stíga inn í …
Louis R. Torres þakkar Guði fyrir að stíga inn í líf sitt og bjarga sér frá ólifnaði rokksins. Mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við tróðum upp úti um allt, meðal annars á Waldorf Astoria-hótelinu, þar sem ég hitti Placido Domingo í samkvæmi. Fleiri frægir urðu á vegi manns. Buckwheat, sem varð frægur í Little Rascals-myndunum á fjórða áratugnum, kom einu sinni á gigg hjá okkur og dansaði allt kvöldið við vasaklútinn sinn. Þá man ég eftir að hafa hugsað: Endar frægt fólk svona? Buckwheat dó fyrir fimmtugt. Þetta sló mig en samt hélt ég áfram í rokkinu – um sinn.“ 

Þetta segir Louis R. Torres sem hafði í átta ár atvinnu af rokktónlist á sjöunda áratugnum, lék meðal annars til skamms tíma á bassa hjá Bill Haley and His Comets sem frægastir eru fyrir einn af frumsmellum rokksins, Rock Around the Clock eða Rokk um alla blokk, eins og Lúdó og Stefán kalla það. 

Louis R. Torres og félagar í The Vampires á sjöunda …
Louis R. Torres og félagar í The Vampires á sjöunda áratugnum.


Hér að ofan er hann að tala um hljómsveitina The Vampires frá New York sem stofnuð var eftir að aðalsprautan í fyrstu hljómsveitinni sem Torres átti aðild að, Donnie and the Twilights, lést af völdum ofneyslu fíkniefna, aðeins 15 ára að aldri. 

Louis unni tónlistinni en leist ekkert á lífernið; sjálfur var hann orðinn háður áfengi og sígarettum vel fyrir tvítugt, auk þess að hafa prófað allskyns fíkniefni. Bræður hans voru í gengjum og að nudda sér utan í hryðjuverkamenn. 

Var orðinn þreyttur á sukkinu

Hann gekk til liðs við Bill Haley and His Comets 1967. „Ég var orðinn þreyttur á sukkinu og hélt af einhverjum ástæðum að böndin væru hreinni eftir því sem þau voru vinsælli. Það var mikill misskilningur og vonbrigði. Einn af The Comets var háður fíkniefnum og svo illa farinn og grannholda að við þurftum að nota títiprjóna til að festa jakkann hans að aftan svo hann liti aðeins betur út á sviðinu. Bill Haley var ekki á efnum en drakk mikið og hélt sig frá okkur hinum. Strax eftir gigg lokuðu þeir Rudy Pompilli sig inni á herbergi og drukku sig í svefn. Yrtu ekki á okkur hina utan sviðsins.“

Sjálfur bjó Louis við tómleika. „Hafi ég haldið að meiri vinsældir, meiri peningar, meira áfengi og fleiri konur væri lausnin á tilvistarkreppu minni var það mikill misskilningur. Taki maður lyf til að deyfa sig þarf maður að taka þau aftur og aftur. Og aftur. Þar er engan sálarfrið að finna. Mér fannst ég vera fastur. Það sækjast margir eftir þessum lífsstíl en trúið mér, hann snýst bara um að troða marvaðann.“

Bill Haley var þrígiftur. Hér er hann með annarri konu …
Bill Haley var þrígiftur. Hér er hann með annarri konu sinni, Barbara Joan Cupchak, 1957. AFP


Að því kom að hann gafst upp og sagði skilið við Bill Haley and His Comets, aðeins 21 árs að aldri. „Við áttum að fara í heimstúr en ég var búinn að fá gjörsamlega nóg. Meðan ég var að bíða eftir túrnum, sem frestaðist, varð ég vitni að mikilli breytingu á bróður mínum, hann hafði kynnst sjöunda dags aðventisma, frelsast og gengið Guði á hönd. Trúin hafði verið fjarri mér en þarna gerðist eitthvað og ég fetaði í fótspor bróður míns. Guð skynjaði þjáningu mína og bjargaði mér. Hann var þess megnugur, hafði kraftinn og loksins skildi ég hvað Guð í raun og veru er. Það var mikil og frelsandi gæfa sem ég hef búið að allar götur síðan.“

– Og búsið og retturnar?

„Guð losaði mig við það um leið og ég hef verið bindindismaður síðan.“

Allir látnir nema einn

– Sérðu aldrei eftir að hafa hætt í rokkinu?

„Nei, ég iðrast einskis. Ekkert löngu eftir að ég frelsaðist, eða 1969, komu mínir gömlu félagar í The Vampires til mín og báðu mig um að ganga til liðs við sig á ný. Sjáið til, piltar, sagði ég, það kemur ekki til greina. Ég er ekki sá maður lengur. Það var í síðasta skipti sem ég sá þá. Nú eru þeir allir látnir, eins og allir sem voru með mér í Donnie and the Twilights og Bill Haley and His Comets. Utan einn. Það er merkilegt nokk sá sem var lengst leiddur í The Comets meðan ég var þar. Hefði ég ekki slitið mig frá þessu á sínum tíma væri ég ábyggilega ekki að tala við þig hér; hefði orðið óreglunni að bráð.“

– Hittirðu Bill Haley einhvern tíma aftur?

„Já, einu sinni. Það var upp úr 1970 og hann var að spila í Madison Square Garden. Mig langaði að segja honum að til væri betri leið í þessu lífi og fór að finna hann. Öryggisverðirnir hleyptu mér inn og við Bill og Martha konan hans áttum ágætt spjall. Ég skildi eftir nokkrar bækur handa honum en sá hann ekki eftir það.“

Hinn upprunalegi konungur

Árið 1976 bar fundum þeirra þó hér um bil saman. „Ég var að gifta hjón í Texas og organistinn kom til konunnar minnar og tjáði henni að ég væri eitthvað kunnuglegur. Já, sagði Carol, hann var bassaleikari í Bill Haley and His Comets. Alveg rétt, sagði konan, Bill Haley var að kaupa óðal hérna rétt hjá. Ég fékk heimilisfangið og fór að hitta Bill. Hann var hins vegar ekki heima, hafði farið í veiði, en ég spjallaði aðeins við Mörthu, eiginkonu hans.

Louis var svo staddur á ráðstefnu snemma árs 1981 þegar maður kom að máli við hann og spurði hvort hann hefði heyrt fréttirnar. Bill Haley væri allur, 55 ára að aldri.

Ítarlega er rætt við Louis R. Torres í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann hefur um áratugaskeið starfað sem aðventistaprestur og er með trúboðsnámskeið á Íslandi um þessar mundir.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »