Ísglugginn í Queens slær í gegn

Hjalti Karlsson stendur hér þriðji frá vinstri við ísgluggann í …
Hjalti Karlsson stendur hér þriðji frá vinstri við ísgluggann í Queens en með honum eru vinnufélagarnir Connor, Amy og Jan.

Í Queens í New York rekur Hjalti Karlsson hönnunarfyrirtæki sitt Karlsonwilker, ásamt hinum þýska Jan Wilker, en saman hafa þeir gert það gott vestan hafs.
Blaðamaður hringir myndsímtal yfir hafið og á meðan rigningin dynur hér á rúður, situr Hjalti á bolnum í bíl sínum í Queens. Úti skín haustsólin skært.

Hjalti beinir myndavélinni í átt að húsnæði fyrirtækisins, en þar má sjá glugga sem á er ritað: Ice cream window, eða Ísgluggi.

„Hér er gluggi framan á skrifstofunni sem hægt er að opna. Við vorum alltaf að pæla í hvort við ættum að opna kaffihús en svo kom upp þessi hugmynd að opna hér ísbúð. Jan sér aðallega um þetta, en við byrjuðum í fyrra. Við höfum bara opið um helgar og það er brjálað að gera, en hingað kemur fólkið úr hverfinu. Það er oft tuttugu manna röð. Þetta er frekar fyndið því þetta byrjaði eiginlega í smá gríni en er orðið vinsælt.“

Íslenskar hrískúlur í uppáhaldi

Ísinn kaupa þeir af fyrirtæki sem heitir Lady Moo Moo.

„Við höfum látið þau framleiða tvær bragðtegundir sérstaklega fyrir okkur, Styrian og Waldmeister. Við erum svo að láta þau hanna ís sem bragðast eins og íslensku hrískúlurnar. Það er spurning hvort Freyja fari í mál við okkur,“ segir Hjalti og hlær.

„Hjá Karlsonwilker vinna sjö manns og það eru allir sjúkir í hrískúlur. Ég þarf alltaf að koma með marga poka þegar ég kem heim frá Íslandi. Við fáum sendingu af þessum ís í næstu viku,“ segir Hjalti og segir þau selja ísinn í brauðformi eða boxum.

„Það er mjög gaman að standa hér vaktina og selja ís og þótt það hljómi kannski hallærislega þá er gaman að gefa eitthvað tilbaka til hverfisins, en við komum hér nýir inn fyrir um fimm árum og það er gaman að tengjast fólkinu í hverfinu. Það er mikið til sama fólkið sem kemur aftur og aftur og fær sér ís. Fólk er alveg sjúkt í þetta!“

Herferð til að vekja von í Beirút

Spurður um verkefni sem Karlsonwilker tekur að sér, segir Hjalti þau afar fjölbreytt.
„Við erum að vinna í alls konar verkefnum. Við hönnuðum línu af úrum fyrir Swatch og svo hönnuðum við stærsta útimálverk sem hefur verið gert í New York. Það er eins og tíu hæða hús og hálf breiðgata. Við vinnum mikið með söfnum og höfum til að mynda unnið með Listasafni Reykjavíkur og erum núna að vinna með listakonunni Shoplifter, Hrafnhildi Arnardóttur, við hönnun á Höfuðstöðinni,“ segir Hjalti.

Karlsonwilker hannaði risastórt útimálverk í Midtown á Manhattan. Myndin er …
Karlsonwilker hannaði risastórt útimálverk í Midtown á Manhattan. Myndin er á við tíu hæða hús og hálf breiðgata að stærð.

Annað áhugavert verkefni sem þeir félagar tóku að sér var stór herferð í Beirút í Líbanon.

„Ég hef aldrei komið þangað og aldrei unnið fyrir neinn þaðan áður, en þessi herferð er kostuð af mjög fjársterkum Líbana. Það varð þarna risastór sprenging á höfninni árið 2020 eins og fólk man, hundruð manna dóu og margt er enn í rúst í borginni. Þessi kúnni okkar er einn ríkasti maður í Beirút, en hann á verslunarmiðstöð og listasöfn. Hann ákvað að fara af stað með herferð til að gefa fólki von og lífga upp á andann. Hann er ekki að reyna að græða á þessu og í raun vill hann ekki láta fólk vita að hann stendur á bak við þetta. Við hönnuðum þrjátíu risa auglýsingaspjöld, auk rafmagnsskjáa. Þetta var mjög áberandi í borginni. Við gerðum líka tónlist því á nokkrum stöðum var hægt að ganga að þessu og þá heyrðist tónlist, en Jan sá um það, enda er hann líka lærður í tónlist,“ segir Hjalti og segir þá félaga því miður ekki hafa getað farið til Beirút vegna faraldursins.

Hjalti hannaði stór auglýsingaskilti í Beirút, en tilgangur þeirra var …
Hjalti hannaði stór auglýsingaskilti í Beirút, en tilgangur þeirra var að lyfta andanum og vekja von í borg þar sem hörmungar hafa dunið yfir. Þar er enn margt í rúst eftir sprengingu í fyrra.

Við förum að slá botninn í samtalið, enda nóg af verkefnum í gangi hjá Hjalta sem gengur sæll út í sólina í Queens.

Nánar er rætt við Hjalta í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert