„Mjög óheppilegt“

Sigurður Ingi Jóhannsson í Alþingishúsinu í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson í Alþingishúsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mjög óheppilegt,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokks, þegar blaðamaður mbl.is spurði hann síðdegis í dag um skoðun hans á þeirri ringulreið sem að því er virðist léleg talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi hefur valdið.

Hann benti á að landskjörstjórn hefði beðið yfirkjörstjórnir allra sex kjördæmanna að skila skýrslu um framkvæmd talningar í kosningunum. Taka þyrfti svo mið af þeim skýrslum.

Eins og kunnugt er voru atkvæði í kjördæminu talin aftur í gær og breyttust um leið niðurstöður kosninganna hvað varðar jöfnunarþingmenn.

Þá verður talið aftur í Suðurkjördæmi í kvöld.

Bjarni Benediktsson eftir fund með Sigurði Inga og Katrínu í …
Bjarni Benediktsson eftir fund með Sigurði Inga og Katrínu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hvernig við viljum sjá hlutina

„Þetta er óheppilegt, það sjá það allir,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins við fjölmiðla eftir fund formannanna þriggja í Stjórnarráðinu í dag.

Bjarni sagðist ekki vilja taka fram fyrir hendurnar á því fólki sem hefði það hlutverk að sjá um kosningarnar og talningu atkvæða. Málið sé í formlegum farvegi.

„Vonandi finnst góð lausn á málinu,“ sagði hann.

„Þetta er alls ekki hvernig við viljum sjá hlutina ganga fram. En það er ekkert óeðlilegt við það að það geti þurft að endurtelja, og það getur haft afleiðingar. En að fara að fella einhverja dóma á þessu stigi finnst mér ótímabært, vegna þess að þeir sem bera formlega ábyrgð á framkvæmd kosninganna eiga eftir að tjá sig.“

Frjálst að hafa skoðanir

Spurður af blaðamanni Vísis hvort honum fyndist óábyrg sú framganga og þau ummæli sem Magnús Davíð Norðdahl og Karl Gauti Hjaltason hafa haft í málinu, sagði Bjarni að þeim væri frjálst að hafa sínar skoðanir.

„Ég skil vel, miðað við þær upplýsingar sem menn hafa séð á netinu og annars staðar, að hluta til frá þeim sem voru að framkvæma kosninguna [...] en ég held að það sé best, í öllum málum sem þarf að skoða vel og vandlega, að bíða eftir því að þau hafi fengið skoðun. Og ef í ljós kemur afgerandi niðurstaða um að lögum hafi ekki verið fylgt, og að það hafi einhverjar afleiðingar, þá skal ég svo sannarlega tjá mig.“

Þetta trufli ekki formennina við stjórnarmyndunarviðræður.

„Ég sé ekki í sjálfu sér að það séu líkur til þess, eins og staðan blasir við mér akkúrat núna, að þessi mikli meirihluti flokkanna sem sitja við borðið, flokkarnir sem eru þrír stærstu flokkarnir á Alþingi, að það sé eitthvað sem myndi trufla þá niðurstöðu.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir fund formannanna í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir fund formannanna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að komast til botns í framkvæmdinni

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagðist leggja áherslu á að öll fram­kvæmd kosn­ing­anna sé haf­in yfir vafa og að mjög mik­il­vægt sé að kom­ast til botns í fram­kvæmd­inni í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Einnig sagði hún það góða ákvörðun að telja aft­ur í Suður­kjör­dæmi.

Spurð hvort gæti þurft að kjósa aft­ur sagðist hún ekki geta tjáð sig um það fyrr en álit lands­kjör­stjórn­ar er komið í ljós, en sagði það fræðileg­an mögu­leika. Bætti hún við að verið sé að vinna hratt og ör­ugg­lega í mál­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert