Alþingi ógildir kosningu, ekki lögreglan

Mynd frá kosningavöku Framsóknarflokksins á laugardag. Daginn eftir kom í …
Mynd frá kosningavöku Framsóknarflokksins á laugardag. Daginn eftir kom í ljós að endurtalning atkvæða í Norðvesturkjördæmi leiddi í ljós talsverðar breytingar á úthlutun jöfnunarsæta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, bendir á að það komi í hlut Alþingis að skera úr um hvort kosning hafi verið lögleg og hvort tilefni sé til ógildingar.

„Ég fæ ekki betur séð af fréttaflutningi en að það liggi beinlínis fyrir að brotið hafi verið gegn bókstaf kosningalöggjafarinnar. Það hvort að þau brot eigi að leiða til ógildingar kosninganna treysti ég mér ekki til að meta á þessari stundu.“

Misbrestur við framkvæmd talningar þýðir ekki sjálfkrafa að kosning sé ógildanleg og kjósa þurfi að nýju. Gallar sem kunna að hafa verið á kosningu þurfa að hafa haft áhrif á úrslit hennar til að hún verði ógilt, að sögn Hafsteins.

Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, telur að …
Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, telur að beinlínis liggi fyrir brot á kosningalöggjöfinni, það þurfi þó ekki að leiða til ógildingar. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Kærur og kröfur um uppkosningu

Þung orð hafa fallið í kjölfar þess að endurtalning í Norðvesturkjördæmi leiddi í ljós talsverðar breytingar á úthlutun jöfnunarsæta.

Karl Gauti Hjaltason, sem var í framboði fyrir Miðflokkinn í Suðvesturkjördæmi, hefur kært framkvæmd endurtalningarinnar til lögreglu.

Þá hefur Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, ákveðið að kæra kosningarnar í kjördæminu til yfirkjörbréfanefndar Alþingis. Mun hann fara fram á uppkosningu í kjördæminu.

Álitaefnið heyri undir hið nýkjörna Alþingi

Talað er um uppkosningu þegar endurtaka þarf kosningu í einu kjördæmi eða fleirum vegna þess að kosningar misfarast eða þegar ágallar eru á framkvæmd kosninga.

Hafsteinn telur að í umræddu tilfelli Norðvesturkjördæmis væri mögulegt að grípa til uppkosninga í kjördæminu. Þó verði að hafa í huga að niðurstaðan í þeim kosningum gæti leitt til breyttrar útdeilingar á jöfnunarþingsætum um landið allt.

Hið nýkjörna Alþingi sjálft hefur það verkefni að kanna hvort einstaka þingmenn séu löglega kosnir, en mælt er fyrir um það í stjórnarskránni. Sýnist Hafsteini að álitaefnin sem rædd hafa verið í sambandi við framkvæmd nýafstaðinna kosninga, heyri því frekar undir þingið.

Kærir ekki meint kosningalagabrot til lögreglu

Spurður hvort yfirkjörstjórn geti, lögum samkvæmt, talið atkvæði kjördæmis aftur að eigin frumkvæði, segir Hafsteinn að það sé einmitt eitt þeirra atriða sem Alþingi kynni að skoða við mat sitt á því hvort þingmenn séu réttilega kjörnir.

Hafsteinn Þór bendir jafnframt á að þar sem brot á kosningalögum heyri undir Alþingi, sé ekki hægt að beina kærum vegna þeirra, til lögreglu.

„Hins vegar er hægt að beina þangað kærum með það í huga að sakamál verði höfðað vegna brota á kosningalöggjöfinni. Slík mál lúta ekki að því hvort ógilda skuli kosningar.“

Þau gögn sem lögreglan kynni að afla um framkvæmd kosninga gætu þó hugsanlega nýst Alþingi.

Hafsteinn segir að það ríki ekki stjórnskipuleg óvissa um farveg málsins. Aftur á móti blasi við að það fyrirkomulag að láta Alþingi sjálft skera úr um álitaefni sem þessi, í stað þess að fela það dómstólum, setji málið í viðkvæma stöðu.

Það fyrirkomulag að láta Alþingi sjálft skera úr um álitaefni …
Það fyrirkomulag að láta Alþingi sjálft skera úr um álitaefni sem þessi, í stað þess að fela það dómstólum, setur málið í viðkvæma stöðu, að mati Hafsteins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meðferð kærumála út af gildi alþingiskosninga

Þegar landskjörstjórn hefur birt niðurtöður kosninga og gefið út kjörbréf til þingmanna, hefst fjögurra vikna kærufrestur. Hann er þó styttri ef þing kemur saman innan þess tíma. 

Kærum skal beint til dómsmálaráðuneytisins sem sendir þinginu svo framkomnar kærur og gögn. Þetta kemur fram í svari forstöðumanns lagaskrifstofu Alþingis, við skriflegri fyrirspurn blaðamanns. 

Forseti Alþingis óskar fyrst eftir því að þingflokkarnir tilnefni menn í bráðabirgðakjörbréfanefnd, til undirbúnings störfum kjörbréfanefndar. 

Á fyrsta fundi þingsins er svo kosin kjörbréfanefnd níu þingmanna. Nefndin fer þá yfir kærurnar og kjörseðlana sem ágreiningur hefur verið um og skrifar um það álit og undirbýr tillögur.

Í áliti kjörbréfanefndar er fjallað um framkomnar kosningakærur og ágreiningsseðla. Það álit er lagt fram á þingfundi og greiða þingmenn þá atkvæði um tillögur kjörbréfanefndar.

mbl.is