Fimm snjóflóð undanfarinn sólarhring

Mikið hefur snjóað undanfarna daga.
Mikið hefur snjóað undanfarna daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls hafa fimm snjóflóð fallið undanfarinn sólarhring og ellefu fallið undanfarna tíu daga. Ekki er þó um að ræða stór snjóflóð og segir starfsmaður Veðurstofunnar enga hættu stafa af flóðunum eins og er.

Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á sviði snjóflóða hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is flóðin eðlilegan fylgifisk veðursins sem geisað hefur undanfarna daga.

„Það falla yfirleitt snjóflóð í svona veðrum. Það væri óeðlilegt ef að það myndi ekki falla flóð samhliða þessu veðri.“

Flóð sem getur grafið mann

Flóðin sem hafa fallið undanfarin sólarhring eru flest í stærðarflokki tvö en samkvæmt kvarða sem Veðurstofan notast við er flóð af stærðarflokki tvö „snjóflóð sem getur grafið mann“ og massi flóðanna í kringum 100 tonn.

Óliver segir einnig að búast megi við fleiri flóðum á næstu dögum. En hann ítrekar að ekkert sé óeðlilegt við flóðin.

„Það eina sem er óeðlilegt er hversu mikið hefur snjóað í lok september.“

mbl.is