Nokkur snjóflóð féllu við Flateyri

Flateyri. Horft yfir hafnarsvæðið þar sem skemmdir urðu miklar á …
Flateyri. Horft yfir hafnarsvæðið þar sem skemmdir urðu miklar á síðasta ári eftir snjóflóð. mbl.is/Hallur Már

Töluverður fjöldi snjóflóða hefur fallið bæði á Vestfjörðum og norður í landi vegna óveðursins sem er núna gengið yfir.

Flest stærstu snjóflóðanna féllu við Flateyri í nótt eða morgun. Eitt féll úr Innra-Bæjargili. Það var þokkalega stórt og fór aðeins upp á varnargarðinn sem þar er, án þess þó að ógna byggð.

Þetta segir Heiður Þórisdóttir, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Nokkur flóð féllu fyrir ofan Flateyrarveg og stöðvuðust þau öll vel fyrir ofan veginn. Búið er að opna bæði Flateyrarveg og veginn um Súðavíkurhlíð en þeim hafði báðum verið lokað. 

Flóð féllu sömuleiðis í kringum Ísafjörð og Bolungarvík og einnig nálægt Dalvík og inni í Hörgárdal.

Heiður telur hættuna yfirstaðna. „Veðrið er gengið niður, vindátt hefur breyst og það hefur hlýnað,“ segir hún og nefnir að hugsanlega muni minni snjóflóð falla á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert