Ofbeldismaður á sér engar málsbætur

Lögreglustjóri hefur tekið nokkrar ákvarðanir um nálgunarbann og brottvísun af …
Lögreglustjóri hefur tekið nokkrar ákvarðanir um nálgunarbann og brottvísun af heimili gagnvart manninum sem hafa ávallt verið staðfestar af dómstólum. Héraðsdómur segir að þetta styðji það að hann hafi gerst sekur um ofbeldisbrot gagnvart fyrrum sambýliskonu sinni mbl.is/Eggert

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 16 mánaða fangelsi fyrir ofbeldi í nánu sambandi, líkamsárás, brot á barnaverndarlögum og lögum um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum.

Maðurinn er ennfremur dæmdur til að greiða samtals 2,1 milljón í miskabætur. Konunni 1,8 milljónir og frænda sambýliskonu sinnar 300.000 kr. Hann er jafnframt dæmdur til að greiða 3 milljónir í laun verjanda og 3,2 milljónir í þóknun réttargæslumanns konunnar, sem og annan sakarkostnað sem hljóðar upp á 286.000 kr. 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gaf út ákæru á hendur manninum 28. desember en dómur féll 17. september sl. Ákæran varðandi brot mannsins gagnvart konunni er í 11 liðum og sjö liðir snúa að börnum mannsins; dóttur og syni. 

Ítrekað ógnað lífi og heilsu sambýliskonu sinnar í 11 ár

Maðurinn var m.a. ákærður fyrir stórfelld brot í nánu sambandi gegn þáverandi sambýliskonu sinni sem voru framin á árunum 2009 til 2020. Fram kemur í ákærunni að hann hafi „ítrekað, endurtekið og á alvarlegan hátt og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt, ógnað lífi hennar, heilsu og velferð með líkamlegu og andlegu ofbeldi, tekið hana hálstaki, ógnað henni með hnífi, slegið hana í hálsinn, öskrað á hana, ýtt henni, gripið í og togað í hana, kastað til og brotið innanstokksmuni, brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar og með því að hóta henni og aðilum henni tengdum, m.a. lífláti og líkamsmeiðingum“. 

Fram kemur að í júlí 2015 hafi maðurinn ógnað lífi, heilsu og velferð konunnar á meðan hún hélt á dóttur sinni. Hann hafi öskrað á hana og kastað innanstokksmunum. Ennfremur segir að eftir að konan hringdi í vinkonu sína og bað hana um að ná í sig, hafi hann elt þær af heimilinu á bifreið sinni, ekið hratt og með ógnandi hætti á eftir þeim. Hafi ekið í veg fyrri þær og við hliðina á þeim þannig að þær urðu óttaslegnar og þeim hætta búin, alveg þar til þær komust í skjól á lögreglustöð. 

Hótaði að hringja inn sprengjuhótun og beita exi

Þá segir frá því, að maðurinn hafi í janúar 2018 hótað að hringja inn sprengjuhótun ef konan færi í flug. 

Maðurinn var jafnframt sakaður um að hafa, í júlí 2019, á samskiptaforritinu Facebook Messenger sent konunni mynd af exi, en henni mátti vera ljóst að skilaboðin beindust einkum að henni og tveimur opinberum starfsmönnum, lækni og starfsmanni barnaverndar, sem hún hafði leitað aðstoðar hjá. En umrædd skilaboð eru svohljóðandi 

„[...]Segir mer ekki að eg se alki. Eigi við vandamal að striða. Eða þurfihjalp fra eh folki. Annars fer exinn i hofuðið a ollum [...]“

Í ákærunni segir einnig að maðurinn hafi með hegðun sinni gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni ógnað heilsu barna sinna á alvarlegan, sársaukafullan og meiðandi hátt. 

Segir m.a. frá því að í eitt skipti, eftir fæðingu sonar þeirra, hafi maðurinn, þegar barnið átti erfitt með að sofna, ruðst í herbergið og tekið rúm drengsins og þrykkt því til. Með þeirri háttsemi hafi hann misboðið syni sínum, sýnt honum vanvirðingu svo andlegri og líkamlegri heilsu hans hafi verið hætta búin og velferð hans ógnað. 

Þá var maðurinn einnig ákærður fyrir brot gegn lögum um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum. En í mars 2020 hafði hann í vörslum sínum steraefni, 10 ml Nandrolon stungulyf, 4 ml Testosteron stungulyf, 41 stk Danabol DS/Methandrostenolone töflur og 100 stykki bláar steratöflur af óþekktri tegund, en lögregla lagði hald á efnin. 

Loks var hann ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa í verslun í mars 2020 slegið mann í andlitið og sparkað í fótlegg mannsins. 

Margar ákvarðanir teknar um nálgunarbann

Fram kemur í dómnum, að lögreglustjóri hafi tekið margar ákvarðanir um nálgunarbann mannsins gagnvart konunni. Sumar þeirra varði einnig brottvísun mannsins af heimili. Þær hafa ávallt verið staðfestar af dómstólum. Maðurinn taldi fyrir dómi að allar þessar ákvarðanir væru tilefnislausar. Dómarinn segir þó, að fullyrða megi út frá gögnum málsins að þessi ályktun mannsins standist ekki. 

Héraðsdómur segir, að maðurinn hafi í þessu máli verið sakfelldur fyrir mörg ofbeldisbrot gagnvart fyrrum sambýliskonu sinni og einnig fyrir brot gegn ungum börnum þeirra. Brotin gagnvart konunni og móður barnanna eru bæði mun fleiri og alvarlegri en brotin gagnvart börnunum en eins og fyrr greinir voru brot gegn móður barnanna óbeint einnig brot gegn þeim.

Undir engum kringumstæðum réttlætanlegt

„Því er um að ræða ítrekuð og að hluta til alvarleg brot en með þeim hefur ákærði gerst sekur um ofbeldi í nánu sambandi og brot á barnaverndarlögum. Brotin ná yfir langt tímabil og miða öll að því að raska högum brotaþola. Líta verður sérstaklega til þess að börnin eru ung að aldri en um það virðist  maðurinn engu hafa skeytt.“

Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að maðurinn eigi sér engar málsbætur og framkoma hans gagnvart brotaþolum hafi undir engum kringumstæðum verið réttlætanleg og í raun langt frá því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert