32 þúsund ferðagjafir enn ónotaðar

Af nýttum ferðagjöfum hefur 64 milljónum króna verið varið hjá …
Af nýttum ferðagjöfum hefur 64 milljónum króna verið varið hjá N1. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega 206 þúsund manns hafa nú sótt ferðagjöfina sem rennur út á miðnætti. Um 280 þúsund einstaklingar 18 ára og eldri, með lögheimili á Íslandi fengu úthlutað ferðagjöf að andvirði 5.000 króna fyrr á árinu en ónotaðar ferðagjafir eru nú um 74 þúsund talsins, samkvæmt upplýsingum frá Mælaborði ferðaþjónustunnar.

Af sóttum ferðagjöfum hafa 174.282 þeirra verið notaðar að hluta en 151.122 fullnýttar, sem samsvarar um 850 milljónum króna. Þá eiga um 32.384 þeirra sem hafa sótt gjöfina eftir að nota hana, sem samsvarar 183 m.kr.

401 milljóna króna varið á veitingastöðum

Af nýttum ferðagjöfum hefur 401 milljón kr. verið varið á veitingastöðum.

Óli Már Ólason, einn eigenda Kol Restaurant segir fleiri nýta sér ferðagjöfina á veitingastaðnum nú þegar hún fer að renna út, inntur eftir því.

„Annars hefur þetta bara verið svoan upp og ofan. Við höfum fundið mikin mun seinustu tvær vikur og fólk mikið verið að hringja inn til að spyrja hvort það geti nýtt gjöfina hjá okkur. Það hefur líka verið að nota gjöfina til að kaupa gjafabréf.

Eflaust hafa einhverjir nýtt ferðagjöfina til að kaupa sér góða …
Eflaust hafa einhverjir nýtt ferðagjöfina til að kaupa sér góða pítsu. Árni Sæberg

Eyvindur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Fjallkonunnar er á sama máli en hann segir notkun ferðagjafarinnar á staðnum hafa aukist jafnt og þétt síðastliðna daga, inntur eftir því.

„Síðustu tvo daga og síðustu tvær, þrjár helgar hefur fólk mikið verið að nota hana. Ég held það sé alveg beintengt því að hún er að fara renna út. Við erum líka búin að vera með smá auglýsingaherferð í gangi um að fólk geti framlengt ferðagjöfinni með því að kaupa gjafabréf hjá okkur. Fólk hefur svolítið verið að nýta sér það.“

Þá hafa 146 milljónir kr. verið varið í afþreyingu og 128 milljónir kr. í samgöngur.

Flestir hafa nýtt ferðagjöfina sína hjá N1, Olís, Sky Lagoon, KFC og Flugleiðahótelum.

Hægt er að nálgast ferðagjöfina á island.is.

mbl.is