Bílvelta á Biskupstungnabraut vegna hálku

Fólk er beðið að vara sig á hálku, sem gætti …
Fólk er beðið að vara sig á hálku, sem gætti víða um land í morgunsárið. Sumarið er sannarlega búið. Ljósmynd/lögreglan á Suðurnesjum

Bíll valt út af Biskupstungnabraut við Svínavatn rétt fyrir klukkan sjö í morgun. Ökumaðurinn var einn í bílnum og varð ekki meint af. Engan sakaði.

Varðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi segir við mbl.is að líklega hafi hálku á veginum verið um að kenna. 

Aðgerðir gengu vel á vettvangi. 

Víða hált

Nokkuð hált er víða um land og því má gera ráð fyrir að einhverjir vegfarendur eigi í erfiðleikum með að aka til og frá vinnu eða skóla. 

Fyrrnefndur varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi segir að margir séu e.t.v. illa undir hálkuna búnir, nú þegar hún gerir fyrst vart við sig, og biðlar til fólks að fara varlega.

Undir það tekur varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, sem segir að líklega verði eitthvað um aftanákeyrslur í borginni í dag. 

Blaðamaður fann fyrir því sjálfur á leið til vinnu að hálka, sem illa sést nema vel sé að gáð, væri á götum borgarinnar – mikið tilefni er til þess að fara varlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert