Hafa eingöngu sinnt hálkuóhöppum í dag

Starfsmenn Áreksturs.is mæta á sérmerktum bílum á vettvang og liðsinna …
Starfsmenn Áreksturs.is mæta á sérmerktum bílum á vettvang og liðsinna vegfarendum. Ljósmynd/Árekstur.is

Árekstri.is hafa ekki borist óeðlilega margar hjálparbeiðnir í dag vegna umferðaróhappa, en þær beiðnir sem hafa borist hafa verið vegna hálku. 

Þetta segir Ólafur Gísli Agnarsson, starfsmaður fyrirtækisins til margra ára, við mbl.is. Hann segir að það hafi verið mikil ísing í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins. 

Vegfarendur í höfuðborginni og víðar fundu eflaust margir fyrir hálku í morgun á leið sinni til vinnu eða skóla. 

Árekstur.is tekur að sér að liðsinna vegfarendum sem lenda í minni háttar umferðaróhöppum og vinna starfsmenn fyrirtækisins náið með lögreglu. 

„Það sem er komið til okkar í dag er eingöngu hálka,“ segir Ólafur. 

Þannig að þessi árstími er sannarlega genginn í garð?

„Hann er genginn í garð, þetta er allt saman að koma og margir eflaust enn þá á sumardekkjum.“

Byrja fyrr nú þegar hálkan er komin 

Ólafur segir að vinnudagurinn byrji fyrr nú þegar hálkan er farin að láta á sér kræla. Á veturna þjónustar fyrirtækið vegfarendur frá klukkan 7:45 á morgnana og þá eru vanalega einhverjir farnir að bíða eftir aðstoð. 

„Nú verður þetta þannig að við opnum fyrr og það er eitthvað að gera alveg bara um leið og við opnum. Við opnum 7:45 og þá er fólk nánast búið að vera að bíða, þeir sem byrja snemma að vinna.“ 

mbl.is