Músagangur boðaði hríðarveður

Hafa þurfti hraðar hendur þegar óveðrinu slotaði við að tína …
Hafa þurfti hraðar hendur þegar óveðrinu slotaði við að tína upp lömb og fullorðið fé úr sköflunum. Ljósmynd/Bergrún Ingólfsdóttir

Bændum á Hæli í Húnavatnshreppi tókst með aðstoð björgunarsveitarmanna að bjarga öllu því fé sem þar fennti í kaf í hríðarskotinu sem gekk yfir norðanvert landið í fyrradag. Á heimatúnum voru hundruð fjár og um 80-100 kindur fóru ofan í skurði og stöfluðust þar hver ofan á aðra. Einnig var nokkuð um að lömb hrektust að girðingum og væru þar föst.

„Veðrið var stjörnuvitlaust, en öllu fé hér á bæ tókst að bjarga,“ segir Jón Kristófer Sigmarsson, bóndi á Hæli, í samtali við Morgunblaðið. Strax í bítið á þriðjudagsmorgun hafi verið komin snjókoma og stormur, sem hafi hert eftir því sem leið á daginn. Hríðarveður þetta hafi staðið þar til síðdegis og þá hafi verið komið 20-30 cm lag af snjó yfir tún.

„Ef lömb fara ofan í skurði stendur yfirleitt eitt upp úr. Því var fljótlegt að lesa sig í gegnum þetta og finna féð. Núna teljum við okkur hér á Hæli vera búin að leita af okkur allan grun og heimta allt okkar fé. Dóttir mín, sem býr á Akureyri, kom reyndar hingað til að taka þátt í leit og björgun og fann tvo eða þrjá hausa sem ég vissi ekki um. Núna er allt féð komið á öruggan stað og bíður þess að farið verði með það í sláturhús, sem verður vonandi einhvern næstu daga,“ segir Jón. Hann bætir við að óveðrið nú hafi kannski ekki verið óvænt. Kona sín, Bergrún Ingólfsdóttir, hafi í síðustu viku veitt miklum músagangi athygli en margra trú er að við slíkar aðstæður að hausti sé harður vetur í nánd. Þau á Hæli hafi verið sammála um eftir þetta að allra veðra væri von, eins og kom á daginn.

Hjálparstörf í Vatnsdal

Mannskapur úr björgunarsveitinni Blöndu á Blönduósi, alls 10 manns, fór í gær til aðstoðar bændum í Vatnsdal, sem leituðu að fé sínu. „Við erum við hjálparstörf á tveimur bæjum í dalnum, en á þeim jörðum sem efst standa er talsverður snjór eftir þetta hríðarskot,“ sagði Þorgils Magnússon björgunarsveitarmaður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert