Unnur býður sig fram til formanns SUF

Unnur Þöll Benediktsdóttir býður sig fram til formanns Sambands ungra …
Unnur Þöll Benediktsdóttir býður sig fram til formanns Sambands ungra Framsóknarmanna. Ljósmynd/Aðsend

Unnur Þöll Benediktsdóttir gefur kost á sér til formanns Sambands ungra framsóknarmanna (SUF).

Ekki bárust fleiri framboð til embættisins en hún verður formlega kjörin á sambandsþingi SUF sem haldið verður við Mývatn helgina 8.-10. október. Unnur verður sjöunda konan til að gegna embættinu í 83 ára sögu sambandsins.

„Þetta er ákvörðun sem hefur setið hjá mér í einhvern tíma og í kosningabaráttunni hef ég fundið mikinn stuðning frá fólkinu í kringum mig, bæði í flokknum og í mínu persónulega lífi,“ segir Unnur í tilkynningu sinni til formannsembættisins. 

Spennt fyrir verkefninu

Unnur er 25 ára Sunnlendingur en er búsett í Reykjavík. Hún stundar meistaranám í öldrunarfræði og er með grunn í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Samhliða námi hefur hún verið í félagslegu frumkvöðulsstarfi þar sem hún, ásamt kollegum sínum, vinnur að því að skapa úrræði fyrir eldra fólk til að draga úr einmanaleika, efla félagstengsl þess og styrkja heilahreysti.

„Ég er full af bjartsýni og spenningi fyrir þessu komandi verkefni. Þetta voru frábær kosningaúrslit fyrir Framsókn. Það var mikið af öflugu ungu fólki sem lagði metnaðarfulla vinnu í baráttuna á hverjum stað. Þó þessi kosningabarátta sé liðin minni ég á að það er ekki nema rúmlega hálft ár í sveitarstjórnakosningar. Í þingflokki Framsóknar sitja nú þrír ungir þingmenn og tveir ungir varaþingmenn sem er ánægjulegt afrek. SUF mun að sjálfsögðu halda áfram að leggja áherslu á að ungt fólk sitji ofarlega á lista í hverju sveitarfélagi,“ segir Unnur.

Unnur skipaði 7. sæti á lista Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hún hefur tekið virkan þátt í ungliðastarfi flokksins síðustu þrjú ár og gegnir núna embætti viðburðastjóra SUF og er einnig ritari Ungra framsóknamanna í Reykjavík. Áður sat hún í stjórn Félags ungra framsóknarmanna í Árnes- og Rangárvallasýslu og tók þátt í endurreisn félagsins árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert