Yfir 400 skjálftar frá miðnætti

Keilir á Reykjanesi.
Keilir á Reykjanesi. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Frá miðnætti hafa um 400 jarðskjálftar mælst á milli Keilis og Litla-Hrúts. Fyrir utan skjálftann sem mældist laust fyrir klukkan tvö í nótt sem var 3,7 að stærð hafa skjálftarnir verið mjög litlir og flestir undir 1 að stærð.

Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er skjálftahrinan enn í gangi en engin merki eru um óróa. Engar breytingar hafa heldur sést á vefmyndavélum.

Hann segir skjálftana hafa verið að færast nær Keili síðan þeir byrjuðu á mánudaginn. Þeir fóru rólega af stað en hafa verið að aukast og í gær færðust þeir mjög í aukana. 

Eftir skjálftann upp á 3,7 í nótt hefur verið smáskjálftavirkni. Gervihnattarmynd átti að berast í nótt frá svæðinu og ekki er búið að vinna úr gögnum úr henni.

Vísindaráð fundar í dag

Vísindaráð almannavarna fundar eftir hádegi þar sem farið verður yfir stöðuna í Geldingadölum og á svæðum við Keili og Öskju. Sambandslaust hefur verið í tíu daga við GPS-mæli við Öskju sem mælir hæðabreytingar á landslaginu.

Vonast er til að samband náist við hann í dag eða á morgun. Reynt hefur verið að fara þangað upp og gera við mælinn en slæmt veður hefur sett strik í reikninginn, að sögn Bjarka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert