Höggva tvo hektara af 85 ára gömlum skógi

Alls verða tveir hektarar höggnir í Vaðlareit eftir helgi.
Alls verða tveir hektarar höggnir í Vaðlareit eftir helgi. Ljósmynd/Skógræktarfélag Eyfirðinga

„Við vegum og metum kosti og galla. Þarna missum við svolítið af skógi en fáum á móti frábært aðgengi. Það kemur sér til dæmis vel fyrir þá sem eru hvað lúnastir,“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Í næstu viku munu tíu bestu skógarhöggsmenn landsins koma saman í Vaðlareit í Eyjafirði, gegnt Akureyri. Þar bíður þeirra það verkefni að höggva tvo hektara af 85 ára gömlum skógi sem skógræktin plantaði þar. Þetta er gert til að hægt verði að leggja göngu- og hjólastíg eftir endilöngum Vaðlareit, samtals um 2,2 kílómetra langan. Í þessum áfanga verður stígurinn lagður frá Vaðlaheiðargöngum í norðri að væntanlegum Skógarböðum í suðri. Síðar verður kláruð tenging til Akureyrar og í hina áttina, norður Svalbarðsstrandarhrepp. Stígurinn verður malbikaður 3,5 metra breiður og undir honum verða lagnir fyrir heitt og kalt vatn inn til Akureyrar auk þess sem þær munu tryggja vatn fyrir áðurnefnd Skógarböð.

Verði sveitarsómi

„Við erum búin að liggja yfir þessu og þræðum fram hjá sjaldgæfum tegundum,“ segir Ingólfur um það verk sem bíður skógarhöggsmanna. „Það er ekki algengt í svona gömlum skógi að það sé fellt svona mikið í einu. Auðvitað bregður sumum við að heyra af þessu enda erum við ekki vön því á Íslandi það sé verið að fella stór og mikil tré. Þetta er hins vegar eðlilegasti hlutur í heimi og við fáum í staðinn betra aðgengi að þessu skóglendi. Ég held að þetta svæði verði sveitarsómi,“ segir hann enn fremur. Auk þess að bæta aðgengi að skóginum mun stígurinn auðvelda alla umhirðu hans að sögn Ingólfs. Þrír áningarstaðir verða gerðir við stíginn þar sem fólk getur hvílt sig og notið útsýnis.

Geymir fágætar tegundir

Það var árið 1936 sem Skógræktarfélag Eyfirðinga hóf skógrækt í Vaðlareit. Á þeim 85 árum sem síðan eru liðin hafa félagsmenn plantað þar alls um 240 þúsund trjám. „Auk algengari trjátegunda sem við þekkjum úr skógrækt má þar einnig finna fágætar tegundir líkt og hlyn, álm, síberíuþin, hvítþin, alaskasýprus, eik, hrossakastaníu, hæruöl o.s.frv. og skógarfururnar sem lifðu af lúsafaraldur á 6. áratugnum eru nú margar hverjar mikilfenglegir risar og afar verðmæt minnismerki í íslenskri skógræktarsögu,“ segir á Facebook-síðu Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Krefst mikils skipulags

„Þetta er skógur þar sem þú getur lesið skógræktarsöguna. Þarna var verið að prófa tegundir sem ekki var vitað hvort virkuðu hér. Það er því sérstaða hans hversu fjölbreyttur hann er og þess vegna hafa margir gaman af því að rúnta um hann,“ segir Ingólfur.

Þessi fjölbreytni gerir það að verkum að efnið sem til fellur við að höggva niður tvo hektara verður alls konar. Segir Ingólfur að það verði nýtt vel. „Það krefst þó nokkurs skipulags að undirbúa þetta svo efnið fari í þann verðflokk sem því sæmir,“ segir hann og upplýsir að eitthvað af efninu verði kurlað, annað nýtist í eldivið og borðvið sem er sá verðmætasti enda geti hann nýst í húsbyggingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert