Sorgin fer ekki fyrr en henni hentar

„Ég hef alltaf haft þessa þörf fyrir að skrifa, hún …
„Ég hef alltaf haft þessa þörf fyrir að skrifa, hún lætur mig ekki í friði,“ segir Ragnheiður Lárusdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnheiður Lárusdóttir hefur skrifað frá því hún var krakki og gerði sér lítið fyrir loksins þegar hún gaf út bók í fyrra, að landa Bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar. Í nýrri ljóðabók fjallar hún um persónulega reynslu af skilnaðarsorg og sorginni sem fylgir því að sjá móður sína hverfa inn í alzheimer og deyja.

Ljóðin fjalla annars vegar um hvernig það er að syrgja eiginmann sem ekki deyr, en kýs að fara til að eiga líf með annarri konu, og hins vegar um sorgina sem fylgir því að sjá móður sína hverfa inn í alzheimer og deyja,“ segir Ragnheiður Lárusdóttir en hún sendi nýlega frá sér sína aðra ljóðabók, Glerflísakliður. Þar fjallar hún um þessar tvær ólíku tegundir sorgar og byggir á eigin reynslu.

„Þetta var að gerast samhliða í mínu lífi og þess vegna set ég þetta svona upp, ég hef eitt ljóð um hvora sorg á hverri opnu bókarinnar,“ segir Ragnheiður og bætir við að þegar kona missi frá sér lifandi mann og syrgi hann, þá sé ekki í boði að syrgja lengi.

„Skilnaðarsorgin er ekki viðurkennd sorg í samfélaginu. Ég mætti því viðhorfi að ég ætti bara að vera hress og fólk sagði mér að gleðjast yfir að hjónabandinu væri loks lokið og að það væru nægir fiskar í sjónum. Mörgum finnst þessi sorg skrýtin, af því enginn dó, en mig langaði með ljóðunum að deila því með öðrum hvernig upplifun þetta er. Mig langaði að tala um þetta tabú í samfélaginu okkar, skrýtnu sorgina sem fólk felur og jafnvel skammast sín fyrir. Mér fannst ég vera rosalega ein með þessa sorg á sínum tíma, en vissulega er til alls konar félagsskapur um sorg og sorgarviðbrögð, en þá er það alltaf tengt andláti. Ég var ekki velkomin í þann félagsskap, því skilnaðarsorg þykir léttvæg í samanburði við andlát.“

Höfnunin er svo erfið

Ólíkt því sem margir gætu haldið þá eru sum ljóðanna í bókinni skondin og skemmtileg, því Ragnheiður leyfir sér að hafa húmor fyrir elliglöpum móður sinnar.

„Maður verður að geta hlegið að þessu líka, þótt það sé átakanlegt, annars bugast maður alveg. Mér fannst rosalega skrýtin og erfið tilfinning þegar mamma mundi ekki lengur að hún ætti mig, að ég væri dóttir hennar, en á sama tíma gat það komið skemmtilega út í samtölum okkar mæðgna og jafnvel verið mjög fyndið. Ég upplifði þessar sorgir mjög ólíkt sem ég fjalla um í bókinni og það tekur lengri tíma að vinna úr skilnaðarsorginni. Höfnunin er svo erfið. Mamma var ekki mjög sorgmædd í sínum veikindum, hún var svolítið áttavillt þegar þetta var að byrja en þegar hún var orðin mjög veik af alzheimer þá var hún frekar glöð og ánægð með líf sitt. Við vorum mjög heppin með það og hún hélt sínum persónuleika að mestu, ólíkt því sem gerist með suma og margir verða líka bölsýnir og jafnvel illskeyttir. Mamma varð aldrei þannig.“

Af hverju læturðu svona?

Ragnheiður segist hafa gert ýmislegt til að losna undan þrúgandi sorginni sem lamaði hana eftir skilnaðinn.

„Ég reyndi mikið, en þetta var mjög erfiður tími í mínu lífi og það mæddi mikið á úr öllum áttum. Ég gekk í gegnum erfið veikindi, dóttir mín var í neyslu og ég fór í kulnun í starfi. Ég fór í meðferð hjá Virk og það hjálpaði mér mjög mikið. Vonandi hjálpar ljóðabókin þeim sem eru staddir í skilnaðarsorg núna, þetta lagast og þá skilur maður reyndar ekkert í því hvað maður var sorgmæddur. Ég skildi líka stundum ekkert í því á meðan ég var stödd í miðri þungu skilnaðarsorginni og sagði stundum við sjálfa mig:

Af hverju læturðu svona? Af hverju geturðu ekki bara haldið áfram að lifa? En sorgin fer ekki úr manni fyrr en henni hentar,“ segir Ragnheiður og bætir við að í hennar tilfelli hafi sorginni hentað að yfirgefa hana sjö árum eftir skilnað.

„Mér finnst merkilegt hvernig talan sjö kemur fyrir í þessari ólíku sorg sem ég gekk í gegnum, því það tók mömmu sjö daga og sjö nætur að deyja. Talan sjö er vissulega heilög tala og nú líður mér vel, ég er laus undan farginu og nýt þess að vera til. Á einhvern hátt er það partur af minni sorgarvinnu að yrkja um þessa upplifun. Ég er búin að gera svo mikið við þetta þegar ég hef komið því í eitthvert form, þannig losa ég mig við svo margt.“

Næsta bók verður um konur

Ragnheiður er enginn nýgræðingur í ljóðum þótt Glerflísakliður sé aðeins önnur bók hennar, en fyrir ljóðabók sína, 1900 og eitthvað, fékk hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í fyrra.

„Þótt ég hafi ekki gefið út fyrr en ég var komin yfir fimmtugt, þá hef ég alltaf skrifað rosalega mikið, alveg frá því ég var krakki. Það kemur eitthvað í höfuðið á mér sem ég losna ekki við fyrr en ég er búin að skrifa það niður. Ég upplifi stundum að það sé glamrandi í höfðinu á mér alveg þar til ég geri eitthvað við það, set það saman í ljóð. Vissulega hafa komið tímabil þar sem ég skrifaði lítið sem ekkert, til dæmis þegar börnin mín voru lítil og enginn tími var aflögu. Ég hef alltaf haft þessa þörf fyrir að skrifa, hún lætur mig ekki í friði og ég var fegin að gefa loksins út ljóðabók í fyrra. Svipuð tilfinning fylgir því að eiga mikið til af ljóðum sem hvergi sjást og að eiga fisk í ísskápnum en elda hann ekki, maður verður að gera eitthvað við þetta áður en það skemmist,“ segir Ragnheiður og hlær en tekur fram að ljóðin sem hún hefur gefið út á bækur séu ný ljóð, ekki dregin upp úr gömlum sarpi.

„Núna er ég að yrkja fyrir næstu ljóðabók en þar tek ég fyrir konuna í alls konar hlutverkum og myndum. Þarna er stelpa, ung kona, miðaldra og gömul kona, en ég hef verið að pæla mikið í jafnréttismálum. Kvenhlutverkið getur verið svo krefjandi, sú staðreynd hlýtur að leita á allar konur.“

Sýnishorn ljóða úr bókinni

Á kaffihúsi

hún situr á móti mér

horfir á mig og segir

mamma þín var mjög falleg kona

ég veit það, þú ert mamma mín

er ég mamma þín?

En gaman

mér finnst þú voða sæt

svo hlær hún og sýpur á kaffinu

Mynd

Við skoðum myndir

afmæli, jól og páskar

við hverja mynd segir hún

hvaða gamla kerling er þetta?

Þetta ert þú mamma

hún hlær hátt og lengi

nei vitleysa

þetta er ekki ég

ég er ekki svona gömul

Á kaffihúsi

grannvaxinn maður við næsta borð

mamma segir hátt og snjallt

þú ert nú ekki góð auglýsing fyrir staðinn

svona grindhoraður

Í sorginni

gerir hún

allt

mætir í vinnuna

fer í búðina

kaupir minna af mat

hann er farinn

hún reiknar

rekur heimili á einum launum

hún þrífur, skúrar, pússar og fægir

yfirborðið er hreint

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert