Loka leikskóla vegna myglu og rakaskemmda

Leikskólinn Efstihjalli í Kópavogi.
Leikskólinn Efstihjalli í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

Ákveðið hefur verið að loka húsnæði leikskólans Efstahjalla í Kópavogi frá og með morgundeginum vegna myglu og rakaskemmda sem komið hafa í ljós í skólanum. 

„Starfsemi skólans fellur niður í tvo daga meðan unnið er að endurskipulagningu. Þegar hefur verið hafist handa við að útvega starfseminni annað húsnæði,“ segir í tilkynningu.

Rúmlega níutíu börn dvelja í leikskólanum sem er fimm deilda. Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar, segir í samtali við mbl.is að ekki sé vitað til þess að börn eða starfsmenn hafi veikst vegna myglunnar.

Leki í tengibyggingu

Leka varð vart í tengibyggingu milli yngri og eldri hluta Efstahjalla í sumar. Mygluskemmdir í tengibyggingunni voru staðfestar í september og foreldrar og forráðamenn upplýst um þær í kjölfarið. Við rif á lofta- og veggjaklæðningu í ganginum kom í ljós umtalsvert meiri skemmdir en gert var ráð fyrir og því ákveðið að fara í sýnatöku víðar í húsinu. 

Sigríður segir að um helgina hafi borist niðurstöður úr seinni sýnatöku sem staðfesta að myglu má finna á fleiri stöðum í skólanum. Því sé gripið til þeirra varúðarráðstafana að loka leikskólanum.

„Starfsemin liggur nú niðri í tvo daga og krakkarnir fara svo í önnur húsnæði,“ segir hún. Foreldrar og forráðamenn barna í leikskólanum hafa verið upplýst og fundað með starfsfólki um málið. 

Næstu vikur verða notaðar til að kanna nánar ástand hússins og ákveða næstu skref. „Það kemur betur í ljós á morgun hvert börnin verða send,“ segir Sigríður.

mbl.is