Þrýstingur á afléttingu hefur ekki áhrif á tillögur

Þórólfur segir ljóst að ekki sé farið eftir gildandi reglum …
Þórólfur segir ljóst að ekki sé farið eftir gildandi reglum á fjölda viðburða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði í morgun nýju minnisblaði til heilbrigðisráðherra um tillögur að sóttvarnaaðgerðum, en reglugerð um núverandi aðgerðir rennur út á miðvikudag. Hann vill lítið gefa upp um innihald minnisblaðsins en segist aðallega styðjast við þá reynslu sem við höfum af því að fara of geyst í afléttingu aðgerða.

„Eins og það sem gerðist hérna í sumar þegar við afléttum öllu. Við erum að sjá smit í gangi núna, við erum að sjá allt í einu aukningu á smitum fyrir norðan. Við erum áfram að sjá innlagnir á spítala, þótt þær séu ekki að valda spítalanum verulegum vandræðum, þannig að við erum ekki að keyra kúrfuna alveg niður eins og við höfum gert áður. Við höldum í horfinu, að mínu mati.“

Óvenju útbreitt hópsmit fyrir norðan

Hann segir stöðuna fyrir norðan, þar sem hópsmit er komið upp bæði á Akureyri og Húsavík, sýna okkur að áfram geti hópsmit komið upp hér og þar. Það hafi verð viðbúið í haust að hópsmit kæmi upp í tengslum við börn í skólum. Ástandið fyrir norðan komi því ekki á óvart. „Þetta er þó kannski óvenjulega útbreitt sem við erum að greina þarna fyrir norðan,“ tekur hann fram. Börn veikist vissulega minna en fullorðnir en þau veikist þó meira nú en af fyrri afbrigðum.

Aðspurður hvort hópsýkingin fyrir norðan hafi haft áhrif á tillögur hans segir hann að auðvitað hafi allt sem gerist einhver áhrif, en hann lauk við minnisblaðið í gær.

Styðst við það sem honum þykir skynsamlegast

Þórólfur segir nokkuð ljóst að töluverður þrýstingur sé á að fella úr gildi allar takmarkanir. „Það er líka ljóst að það eru margir viðburðir þar sem ekki er farið eftir reglum. Eins og hvað varðar hólfaskiptingu og samgang á milli hólfa, grímunotkun og svo framvegis. Þannig að það er mikill þrýstingur á að aflétta öllu eins og hefur verið áður. En það er eins og það er. Mínar tillögur eru eins og mér finnst skynsamlegast að gera þetta, ég get ekki stuðst við neitt annað.“

Þrýstingurinn hefur þá ekki áhrif á þínar tillögur?

„Allavega ekki svona áþreifanlega,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert