Friðarsúlan tendruð á laugardag

Friðarsúlan í Viðey.
Friðarsúlan í Viðey. mbl.is/Styrmir Kári

Friðarsúlan í Viðey, listaverk Yoko Ono, verður tendruð í 15. sinn á fæðingardegi tónlistarmannsins Johns Lennon laugardaginn 9. október klukkan 20.00 en hann hefði orðið 81. árs þann dag. Friðarsúlan mun varpa ljósi upp í himininn til 8. desember sem er dánardagur Lennons.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að vegna samkomutakmarkana sem í gildi eru verður tekið á móti 500 gestum í Viðey þar sem haldinn verður viðburður í tengslum við tendrunina.

Friðarsúlan verður tendruð klukkan 20, eftir að Ásgeir Trausti flytur tónlist sína við hana og Dagur B. Eggertsson flytur ávarp.

Býður upp á fríar siglingar

Yoko Ono býður upp á fríar siglingar yfir sundið. Siglt verður frá Skarfabakka frá kl. 18:00 til 19:30. Panta þarf miða í viðeyjarferjuna hjá Eldingu.

Beint streymi verður frá athöfninni á heimasíðu Reykjavíkurborgar, reykjavik.is, og segir í tilkynningunni að fólk sé hvatt til þess að fylgjast með tendrun Friðarsúlunnar og hugsa um frið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert