Jákvæð persónuleg ákvörðun að hætta

Páll mun snúa aftur til klínískra starfa í geðþjónustu Landspítalans.
Páll mun snúa aftur til klínískra starfa í geðþjónustu Landspítalans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Páll Matthíasson, fráfarandi forstjóri Landspítalans, segir þá ákvörðun að láta af störfum alfarið hans eigin. Hann hafi ekki verð beittur neinum þrýstingi í þeim efnum. Síðastliðinn föstudag hafi hann verið forstjóri spítalans í átta ár og nú sé einfaldlega rétti tíminn til að afhenda keflið öðrum.

„Einhvern tíma verður maður að segja að það sé komið nóg. Spítalinn hefur náð ótrúlegum árangri og í raun umbylst á þessum átta árum. En það eru auðvitað verkefni og áskoranir framundan tengdar uppbyggingu á Hringbraut og áskoranir tengdar rekstri, mönnun og fjármögnum. Síðan eru breytingar þar sem farsæll ráðherra sem hefur verð velviljaður spítalanum er að láta af embætti. Margt spilar saman og verður til þess að ég tek þá persónulegu ákvörðun, alveg sjálfur, að nú sé góður tími til að stíga til hliðar og afhenda keflið öðrum,“ segir Páll, en það hafði blundað í honum um tíma. Hann fór hins vegar ekki á fund ráðherra fyrr en í gær.

Gagnrýni á ekki þátt í ákvörðuninni

Aðspurður hvort honum finnist hann hafa notið trausts í sínu starfi, svarar hann því játandi. Hann sé fyrst og fremst lánsamur að hafa fengið að vinna með frábæru starfsfólki Landspítalans og þremur heilbrigðisráðherrum sem hafi borið hag heilbrigðiskerfisins fyrir brjósti.

Páll segir að sú ákvörðun að hætta á þessum tímapunkti hafi ekki orsakast af neinum utanaðkomandi þáttum eða gagnrýni á stjórnun spítalans, sem reglulega hefur komið upp. Nýlega sendi stjórn Félags bráðalækna til að mynda opið bréf til heilbrigðisráðherra þar Landspítalinn var sagður stjórnlaus og að þar væri engin virk álagsstjórn. „Ég fagna því ef starfsfólk spítalans lætur í sér heyra, en auðvitað vil ég að fólk noti gögn og sýni stillingu. Það er besta leiðin til að koma skilaboðum á framfæri. En það hefur alls ekki truflað mig og á alls ekki þátt í þessari ákvörðun. Þetta er bara jákvæð ákvörðun af minni hálfu.“

Snýr aftur til klínískra starfa

Páll lætur af störfum strax á mánudaginn en þá tekur Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítalans, tímabundið við stöðu forstjóra. Páll verður henni innan handar næstu mánuði, en hann segir mikilvægt í svona annasömu starfi að forstjóraskiptin gerist mjög hratt. „Þetta er eins og að vera í bíl á 100 kílómetra hraða, það þarf einhver annar að grípa stýrið strax.“

Hann segist alls ekki þorrinn af kröftum þótt hann láti af störfum sem forstjóri, enda sé nóg af verkefnum til að takast á við. „Fjölskyldan verður ánægð með að ég vinni aðeins minna. Það er mikil þörf fyrir geðlækna og starfsfólk í geðheilbrigðisþjónustunni og ég sé fyrir mér að ég muni snúa aftur til klínískra starfa á geðþjónustu Landspítalans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert