Senda fatnað til Íslands í álagspróf

Rémi Clermont, annar stofnenda Cafe du Cycliste kaffihússins og fatamerksins …
Rémi Clermont, annar stofnenda Cafe du Cycliste kaffihússins og fatamerksins sem ber sama nafn. Líklegast er ekki ofsögum sagt að kalla hann Íslandsvin í dag.

Fyrir ellefu árum síðan ákvað Frakkinn Rémi Clermont að koma að kaffihúsarekstri í borginni Nice með félaga sínum, en aðaláherslan var á hjólreiðafólk. Eitt leiddi af öðru og stuttu síðar fór kaffihúsið að hasla sér völl við hönnun og sölu á hjólreiðafatnaði. Það leiddi til tengingar við Ísland og samstarfs við 66 norður, auk þess sem hópur íslenskra hjólara prófar vörur fyrirtækisins sem eiga að vera fyrir erfiðar aðstæður.

mbl.is ræddi við Rémi nýlega og fékk nánari skýringu á hvernig þetta kaffihúsaævintýri varð á endanum til þess að hann kemur nú árlega í hjólaferðir til Íslands til að hjóla um hálendið eða malarvegi landsins, bæði til að njóta en einnig til að taka upp auglýsingaefni fyrir fatamerkið.

Átti bara að vera fatasala fyrir kaffihúsagesti

„Við byrjuðum sem kaffihús við Nice,“ byrjar Rémi sögu sína. Margir hjólreiðamenn eiga þarna leið um og allt tengt kaffihúsinu var tengt hjólreiðum. Rémi segir að meðan samstarfsfélagi hans hafi séð um kaffihúsið hafi hann horft til þess að hanna einn galla sem væri merktur kaffihúsinu og hafa einhverskonar kaffihjólahóp og byggja þannig upp tryggan viðskiptahóp. „Þegar ég byrjaði þá vildi ég hafa þetta litla fataframleiðslu sem væri tengt kaffihúsinu,“ segir Rémi, en kaffihúsið og fatamerkið bera í dag sama nafn, eða Cafe du Cycliste.

„Þetta er útivist“

Fatnaðurinn virtist slá í gegn hjá viðskiptavinunum og segir Rémi að mjög fljótt hafi fataframleiðslan stækkað umtalsvert. Spurður út hvað aðskilji þá frá öllum öðrum hjólafatnaði sem í boði er segir Rémi að flest vörumerkin einbeiti sér að keppnishjólreiðum og að auglýsingar og þróun tengist því. „Fyrir okkur eru hjólreiðar miklu meira en bara Tour de France. Þetta er útivist,“ segir hann og líkir hjólreiðum við veiðar, fjallahjólreiðar og kayakróður, en sjálfur kom hann upphaflega úr þeirri íþrótt. „Þess vegna passar samstarfið með 66 norður okkur, við erum partur af sama heimi frekar en að vera hluti af keppnishjólreiðum,“ segir Rémi. Nefnir hann að fatnaður fyrirtækisins séu fremur afslappaðri og ekki jafn þröngur og jafnan sést í hjólreiðum. Þá noti fyrirtækið fleira en bara gerviefni, meðal annars talvert af ull.

Eyjólfur Guðgeirsson og Ágústa Edda Björnsdóttir héldu fyrr á árinu …
Eyjólfur Guðgeirsson og Ágústa Edda Björnsdóttir héldu fyrr á árinu upp á Fjallabak þar sem teknar voru myndir af nýju vörunum.

Malarhjólreiðar hafa mikið stækkað undanfarin ár. Hefur lenskan þar verið nokkuð afslappaðra andrúmsloft en í hefðbundnum keppnishjólreiðum. Rémi segir að fatnaður Cafe du Cycliste passi því vel við þá þróun og hefur fyrirtækið því farið í gegnum 50% ár eftir ár síðustu þrjú ár. Hann segir fyrirtækið þó enn lítið í stóra samhenginu, en að framundan sé áformuð enn frekari stækkun.  

Þurftu að prófa vörurnar við vetrarlegar aðstæður

En hvernig kom þessi tenging til við Ísland? Rémi segir að hann eða samstarfsfélagi hans hafi aldrei hugsað um Ísland sem áfangastað. Þeir hafi aðallega verið að hanna vörur fyrir meginlandsmarkað Evrópu þar sem veðrið sé jafnan nokkuð þægilegra en hér.

Hins vegar hafi þeir farið í að útvíkka aðeins framboðið og viljað bjóða upp á fatnað fyrir vetrarlega aðstæður. Það hafi svo þurft að prófa vörurnar við almennileg skilyrði og taka auglýsingamyndir, en þetta átti sér stað í september fyrir þremur árum. Rémi segir að ekki hafi verið hægt að treysta á hryssingslegt vetrarveður á þessum árstíma í Frakklandi eða annarsstaðar nálægt þeim í Evrópu. Því hafi þeim dottið í hug að skella í ferð til Íslands „fyrir virkilega vetrarlega aðstæður í september.“

Samfélagið á Íslandi tók þeim opnum örmum

Rémi segir að hugmyndin hjá þeim sé alltaf að nota helst hjólreiðafólk frá þeim stöðum sem myndatökurnar fari fram sem og ljósmyndara. Þeir hafi því spurst fyrir og fljótlega hafi þeim verið bent á nokkur nöfn hér á landi sem gætu aðstoðað þá. „Fólk var mjög jákvætt að vinna með okkur,“ segir Rémi og ítrekar reyndar reglulega í gegnum viðtalið hversu ótrúlega hjálplegir allir í hjólreiðasamfélaginu hér á landi hafi reynst þeim þegar eitthvað hafi vantað eða þeir hafi leitað aðstoðar.

Í fyrstu hafi þeir unnið með Maríu Ögn Guðmundsdóttur, en síðar hafi bæst við meðal annars Hafsteinn Geir Ægisson, Kristinn Jónsson, Eyjólfur Guðgeirsson og Ágústa Edda Björnsdóttir.

„Elskum landslagið, en veðrið er oft erfitt“

„Við héldum sambandi eftir fyrstu ferðina og höfum komið nokkrum sinnum til viðbótar,“ segir Rémi og bætir við að nú séu heimsóknirnar í raun orðnar að hefð fyrir þá, enda nýta þeir alltaf tækifærið og hjóla í leiðinni um hálendið eða aðra malarvegi. „Við elskum landslagið, en veðrið er oft erfitt,“ segir hann.

Fyrir um einu og hálfu ári hittu þeir svo á fulltrúa frá 66 norður og þá fór boltinn að rúlla varðandi samstarf fyrirtækjanna. Segir Rémi að þó hægt sé að prófa hjólafatnað í köldu umhverfi í Frakklandi sé það oftast þegar farið sé upp í fjöllin og þá fylgi að mikið sé hjólað upp með tilheyrandi áreynslu, en svo sé rennt sér niður og þá kólni hjólreiðafólkið mikið, enda áreynslan þá lítil.

Skel jakkinn frá 66 norður og Cafe du Cycliste.
Skel jakkinn frá 66 norður og Cafe du Cycliste.

Mikilvægasta endurgjöfin frá Íslandi

Hér á landi sé hins vegar hægt að prófa vörur í köldu og blautu umhverfi án þess að vera að fara mikið upp í fjöllin. „Þetta er ástæðan af hverjum okkur líkar svona við Ísland og sendum vörur hingað til að prófa þær í allskonar veðri,“ segir Rémi. „Við prófum enn ákveðinn búnað í fjöllunum hér heima, en það er mikilvægasta endurgjöfin sem við fáum þegar við sendum fatnað til Íslands.“

Rémi segir að fyrst þegar hann og samstarfsfélagar hans hafi komið til landsins hafi þeir gert stór mistök. „Við vildum vera á öllum flottustu stöðunum og það endaði í því að við þurftum að keyra mjög mikið“ Þannig hafi þeir verið með myndatöku við Jökulsárlón og farið þaðan beint á Norðvesturland. Slíkt hafi kallað á mikla keyrslu sem kom niður á tíma til að hjóla.

„Næsta ár ákváðum við að fókusa á Landmannalaugar,“ segir hann, en hópurinn var þar í vikutíma. Næst var komið að Norðurlandi og þar næst Snæfellsnesi. „Nú veljum við svæði og erum þar í viku að hjóla,“ segir hann.

Vörurnar kynntar formlega síðar í október

Vörurnar sem Cafe du Cycliste og 66 norður hafa verið að hanna saman verða formlega kynntar síðar í mánuðinum, en Rémi segir að um sé að ræða þrjár flíkur og eina tösku.

Fyrst er um að ræða Goretex jakka sem sé vindheldur og vatnsþolinn. Þá sé hlýr jakki með einangrun að framan en ekki á bakinu. Er þetta gert þar sem vindkæling er jafnan talsverð fyrir hjólreiðafólk. Þriðji er svo flísjakki úr teygjanlegu efni sem mun bera nafnið Landmannalaugar, en Rémi segir að skreytingarnar á jakkanum séu í stíl við landslagið þar. Taskan er svo gerð úr afgangsefni úr jökkum og mun passa við stílinn á Landmannalaugajakkanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert