Sjónvarpsáhorf stórjókst í kjölfar Facebook-bilunar

AFP

Það fór eflaust framhjá fáum að þjónusta Facebook, Instagram og WhatsApp lá niðri sökum tæknilegra vandamála í gær. Þurftu notendur miðlanna að þola útilokun frá þeim í um sex klukkustundir.

Yfir 90% Íslendinga nota Facebook og því olli bilunin því að Íslendingar þurftu að leita annað til að eyða tíma sínum á mánudagskvöldi. Starfsfólk Símans tók sannarlega eftir því að ekki var um að ræða hefðbundið mánudagskvöld en áhorf yfir sjónvarpsþjónustu Símans jókst um 43% miðað við hefðbundið mánudagskvöld.

Samkvæmt upplýsingum frá Símanum var áhorfið í gær á meðan Facebook lá niðri í takt við ágætt sunnudagskvöld þegar þjóðin horfir hvað mest á sjónvarp.

„Áhorfið dreifðist jafnt á þessar helstu stöðvar og annað efni. Okkur fannst aðallega merkilegt hvað áhorfið jókst mikið við þessa einu bilun hjá Facebook, það hefði eflaust orðið enn meira ef t.d. YouTube hefði legið niðri í þetta langan tíma,“ segir Bryndís Þóra Þórðardóttir vörustjóri Sjónvarps Símans.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert