Ákærður fyrir kynferðisleg myndskeið af vistmanni á sambýli

Héraðssaksóknari.
Héraðssaksóknari. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir kynferðisbrot í opinberu starfi sem starfsmaður á sambýli.

Í ákæru málsins kemur fram að maðurinn hafi tekið upp myndbrot af vistmanni án samþykkis, þar sem vistmaðurinn lá nakinn uppi í rúmi og handlék ber kynfæri sín. Sendi maðurinn myndirnar í gegnum samskiptaforritið Snapchat á annan aðila. Fram kemur að maðurinn hafi með þessu sært blygðunarsemi vistmannsins.

Auk þess er maðurinn ákærður fyrir að hafa haft í hótunum við þann sem fékk myndbrotið sent. Kemur fram að hann hafi í sex skipti sent viðtakandanum hótanir í gegnum Instagram, meðal annars skilaboðin: „Ef þu ætlar að jarða mitt mannorð þar sem eg hef reynt að standa mig eins og eg get, þa mun eg gjörsamlega ganga fra þer.“

Auk þess sem farið er fram á að manninum verði gerð refsing er af hálfu vistmannsins farið fram á 1,5 milljónir í miskabætur.

mbl.is